Heim Fréttir Færra starfsfólk HÍ notaði vistvænar samgöngur 2022 en 2020

Færra starfsfólk HÍ notaði vistvænar samgöngur 2022 en 2020

Niðurstaða starfumhverfiskönnunar Háskóla Íslands sýnir að árið 2020 notuðu 47% starfsfólks vistvænar samgöngur en árið 2022 var það hlutfall 41% eða um 6% færri en tveimur árum áður.

Í könnunni var starfsfólk spurt að því hvaða samgöngur það notaði oftast til að komast til og frá vinnu. Af henni má einnig greina að um helmingur starfsfólks, eða 49%, ferðast eitt með bíl til vinnu og hefur það hlutfall hækkað lítillega milli áranna.

Línurit/Sjálfbærni- og umhverfismál Háskóla Íslands

Kolefnishlutleysi eitt af markmiðum Háskóla Íslands

Vistvænar samgöngur er mikilvægasti liðurinn í því að minnka losun háskólans þar sem um 90% af losun háskólans er vegna samgangna. Sjálfbærni háskólans er einn af hornsteinum stefnu háskólans og í stefnunni má lesa: 

„Skólinn verði í forystu í sjálfbærri starfsemi og setji sér mælanleg markmið á sviði kolefnishlutleysis á stefnutímabilinu sem byggi á markmiðum Íslands í þeim málaflokki”

Þá er eitt markmiða umhverfisstefnu háskólans að: „Efla vistvænar samgöngur og stuðla að uppbyggingu vistvænna innviða“ og kannanir sem þessar leika mikilvægt hlutverk í því að meta hvernig gengur og hvað má betur fara.

Misjafnt eftir fræðasviðum hvaða samgöngur eru valdar

Könnunin sýnir einnig að mismunandi er eftir fræðasviðum hversu mikið starfsfólk nýti sér vistvænar samgöngur. Þrátt fyrir að það fræðasviðin séu öll í svipaðri nálægð við almenningssamgöngur, að undaskildu Rannsóknarsetri HÍ sem er með setur um allt land, þá er misræmi milli þess hve mikið starfsfólk hinna ýmissu sviða nýta vistvænar samgöngur.

Þess má til dæmis geta að starfsfólk Heilbrigðisvísindasviðs notar einkabílinn um 24% meira en starfsfólk Hugvísindasviðs.

Línurit/Sjálfbærni- og umhverfismál Háskóla Íslands
Línurit/Sjálfbærni- og umhverfismál Háskóla Íslands