Heim Fréttir Félagsleg nýsköpun í brennidepli Þjóðarspegilsins

Félagsleg nýsköpun í brennidepli Þjóðarspegilsins

„Er félagsleg nýsköpun eitthvað annað en nýsköpun? Ég myndi halda að það sé erfitt að greina þarna á milli en ég held að það sé samt mikilvægt að tala um félagslega nýsköpun til þess að koma ofar þessum verkefnum og til þess að nýsköpun sé ekki svona ofboðslega tengd þessari tæknilegu nýsköpun eins og hugtakið er í dag og hefur verið undanfarin ár. En það að gera mjög skýran greinarmun held ég að sé mjög erfitt”, sagði Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Hún vitnaði þar í þau verkefni sem félagsleg nýsköpun einblínir á, líkt og umhverfis- og loftslagsmál, ójöfnuð, fordóma, stríð og fólk á flótta svo eitthvað sé nefnt.

Kom þetta fram í pallborðsumræðu sem haldin var á ráðstefnu Þjóðarspegilsins þann 27. október síðastliðinn. Viðfangsefni ráðstefnunnar var félagsleg nýsköpun og snérust umræður pallborðsins að miklu leyti um hvar munurinn lægi á milli efnahagslegrar nýsköpunar og félagslegrar og hvort hægt væri að segja að félagsleg nýsköpun væri í raun efnahagsleg. Kom þá m.a. fram hvernig félagsleg og efnahagsleg nýsköpun geta oft haldist hönd í hönd líkt og Ásdís Halla kom inn á:

„Það eru mjög margar rannsóknir sem sýna það að þau fyrirtæki sem þrífast best og ná mestum árangri eru þau sem eru algjörlega með samfélagslega hugsjón að leiðarljósi“

Með Ásdísi Höllu í pallborðinu voru einnig Steinunn Hrafnsdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, Stefan Celine Hardonk, dósent í fötlunarfræði og Rúnar Björn Þorkelsson, formaður NPA miðstöðvarinnar. Auk þess að taka þátt í pallborðsumræðum fluttu Steinunn og Stefan sitthvort erindið á ráðstefnunni.

Fjallaði erindi Steinunnar um samfélagslega nýsköpun út frá fræðilegu sjónarhorni og hvert hlutverk og framlag félagsvísinda eigi að vera til þeirrar nýsköpunar. Fram kom í erindi Steinunnar að félagsleg nýsköpun geti verið skilgreind sem sem ferli sem felur í sér að þróa og miðla lausnum á samfélagslegum og oft kerfislægum áskorunum samfélags og umhverfis til að stuðla að félagslegum framförum. Að erindi hennar loknu var komið að erindi Stefans Celine Hardonk en fjallaði þar Stefan m.a. um reynslu sína af rannsóknarverkefni sem hófst árið 2020 og stefndi að því að kanna möguleika fatlaðs fólks til þátttöku í nýsköpun.

Þjóðarspegillinn er haldin árlega og var þetta í 23. skiptið sem ráðstefnan er haldinn. Degi eftir að ráðstefnan hefst er hefðin að ýmiskonar mismunandi málstofur séu haldnar á víð og dreif um Háskólasvæðið sem öllum sé frjálst að mæta á en áherslur Þjóðarspegilsins hafa verið að skapa vettvang þar sem fræðafólk ræðir ekki bara hvert við annað heldur til að eiga einnig virkt samtal við samfélagið utan veggja skólans.