Metoo-bylgjan gæti hafa haft þau áhrif að kynferðislegt áreiti á netinu mælist hærra í rannsóknum nú en það gerði fyrir bylgjuna. Kom þetta fram á fyrirlestri Helga Gunnlaugssonar og Jónasar Orra Jónassonar sem fór fram nú á dögunum á málstofu Þjóðarspegilsins. Starfar Helgi sem prófessor í félagsfræði og Jónas sem sérfræðingur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Á fyrirlestrinum greindi Helgi frá niðurstöðum rannsóknar sem hann sjálfur og Jónas Orri hafa unnið að undanfarin ár og einblínir á netglæpi. Niðurstöður sýna að um það bil 16% Íslendinga sögðust hafa orðið þolendur netglæpa árið 2022. Er það lægra hlutfall en árin 2018 og 2020, þar sem mældist 19%, en hærra en árið 2016 þar sem mældist 13%. Það sem vekur þó mikla athygli er að kynferðisleg áreitni hefur aukist mjög frá árinu 2016. Varpa þeir Helgi og Jónas því fram spurningunni hvort metoo-bylgjan, sem átti sér stað hér á landi árið 2017 hafi haft þau áhrif að það varð aukin meðvitund um áreitni á netinu. Helgi og Jónas bentu á að í fyrri rannsókn þeirra, sögðust 13% þátttakenda hafa orðið fyrir netglæp árið 2016, en 2018 var hlutfallið orðið 20%.
Allir flokkar netglæpa mældust þó álíka algengir nema kynferðisleg áreitni. Það var þá fyrst og fremst af því að fleiri konur sögðust hafa orðið fyrir henni. Er því velt fyrir sér í rannsókninni hvort áhrifin sem metoo-bylgjan hafði á samfélagið í heild sinni, þegar konur frá hinum mörgu menningarkimum samfélagsins stigu fram og tjáðu sig um kynferðislega áreitni, gætu hafa leitt til aukins skilnings á kynferðislegri áreitni á netinu og þ.a.l. hærri mælinga á árunum eftir á.
Rannsaka þróun netglæpa
Tilgangur þeirrar rannsóknar sem Helgi og Jónas hafa unnið að er að skoða umfang netglæpa hér á Íslandi, hvernig þróun þeirra hefur verið og hvaða hópar eru líklegastir til að verða fyrir netglæpum. Hefur verkefnið staða yfir í þó nokkurn tíma en gögnin í ár sýndu niðurstöður og þróun á milli áranna 2016, 2018, 2020 og 2022. Á meðal spurninga í rannsókninni voru t.d. hvort og hversu oft þátttakendur skoða klámsíður og niðurhala ólöglegu efni. Er það byggt á því að þeir notendur internetsins sem finna sig inni á vafasömum síðum eru líklegri til að verða fyrir netglæpum.
Þrítugir og undir mælast hæst
Niðurstöður rannsóknarinnar leiða m.a. í ljós að þolendur netglæpa árið 2022 mælast hæst í flokknum 18-29 ára og helst það í hönd við erlendar rannsóknir. Sá flokkur mælist einnig hæst í klámáhorfi og niðurhali ólöglegra efna, þó má sjá að niðurhal ólöglegra efna hafi farið niður á við undanfarin ár og segir Helgi að þar gæti uppvöxtur streymisveita á borð við Netflix haft áhrif. Niðurstöður sýna einnig að í öllum mælingum rannsóknarinnar, þ.e. 2016, 2018, 2020 og 2022 eru algengustu netglæpirnir meiðyrði og fjársvik.
Fyrirlesturinn var partur af málstofunni Afbrot, ofbeldi og löggæsla 1. Á síðu Þjóðarspegilsins má sjá að þeir Helgi og Jónas hafa séð um fyrirlestra fyrir umrædda málstofu undanfarin ár en með mismunandi áherslum. Snerist t.a.m. fyrirlestur tvíeykisins árið 2019 um kannabisneyslu Íslendinga og afstöðu þeirra í fíkniefnamálum.
Vefsíðu Þjóðarspegilsins má sjá hér: Þjóðarspegillinn – Ráðstefna í félagsvísindum (hi.is)