Gjaldskylda bílastæða á Háskólasvæðinu hefst ekki fyrr en sumarið 2025. Þetta kom fram á Háskólaþingi Háskóla Íslands 20. nóvember. Upprunalega átti að hefja gjaldskyldu haustið 2024.
Háskólaþing Háskóla Íslands fór fram síðastliðinn miðvikudag og voru skipulags- og samgöngumál til umræðu. Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, kynnti stöðu mála varðandi gjaldtöku á bílastæðum.
„Við erum að stefna á að þetta gerist mögulega næsta sumar,” sagði Kristinn á þinginu.
Gjaldskylda bílastæðanna hefur lengi legið fyrir og var fyrst áætlað að hún myndi hefjast haustið 2024. Í september sagði Háskólinn að gjaldskylda myndi hefjast um áramót.
Háskólinn hefur ákveðið að vinna að gjaldtökunni í samstarfi við Landspítalann. Kristinn telur að nýtt útboð fari út um áramót 2024. Þá liggur fyrir að gjaldskyldan hefjist ekki fyrr en sumarið 2025.
Skipt í tvö gjaldsvæði
Gjaldsvæðin verða tvö. A svæðið er þar sem nú þegar eru gjaldskyld bílastæði en verður þeim stæðum fjölgað.
Á svæði B verður einnig gjaldskylda en geta nemendur og starfsfólk háskólans skráð ökutæki sín og greitt þar af leiðandi lægra gjald.
Tvö tilboð dæmd ógild
Háskóli Íslands bauð fyrst út verkið síðastliðið sumar og fékk þrjú tilboð, eitt yfir áætlun og tvö langt undir. Háskólinn hafnaði hins vegar lægsta tilboðinu frá Gulum bíl ehf. og hóf viðræður við Parka sem var með næstlægsta tilboðið.
Gulur bíll ehf. kærði höfnun Háskólans. Niðurstaðan var sú að bæði tilboð Parka og Guls bíls ehf. voru dæmd ógild og þyrfti að bjóða verkið aftur út.
Hægt er að horfa á Háskólaþingið í fullri lengd hér að neðan. Til umræðu voru öryggismál, alþjóðasamstarf, alþjóðleg staða og skipulags- og samgöngumál.