Heim Fréttir Fuglalífið veitir sumum gleði en öðrum ekki

Fuglalífið veitir sumum gleði en öðrum ekki

Ljósmynd af mávum á flugi.
Ljósmynd af mávum á flugi.

Það fer ekki fram hjá neinum sem gengur reglulega um háskólasvæðið að fuglar ráða ríkjum á stórum hluta svæðisins. Það má einna helst sjá gæsir og máva á flugi eða í makindum sínum á túninu fyrir framan aðalbyggingu skólans. Að margra mati fylgir þeim mikill sóðaskapur sem dregur úr ánægjunni sem hlýst af fuglalífinu.

Hjalti Már Stefánsson, garðyrkjustjóri við HÍ, segir að þó fuglarnir séu skemmtilegir fylgi þeim þó ákveðnir ókostir. Garðyrkjudeildin sér um að útisvæði háskólans séu vel hirt og aðgengi að lóðunum í lagi allt árið um kring. Til þess þarf garðyrkjudeildin að sópa eða blása gæsaskítnum af göngustígunum og út á grasflatirnar. Gæsirnar eiga það til að bíta upp grasnálina sem hefur neikvæð áhrif á endurnýjun grasflatanna. „Einnig er oft töluvert um fugla sem sækja í skordýr í flötunum. Ég veit ekki hvort þetta sé í þeim mæli að þetta hafi einhver áhrif að ráði” segir Hjalti Már.

Fuglamergðin lífgar upp á svæðið en þeim fylgir sóðaskapur

Nokkrir stúdentar sem blaðamaður ræddi við sögðust hræddir við gæsirnar og mávana. Sumum finnst þeir yfirþyrmandi og óttast þar að auki að keyra á gæsirnar, Hjalti segir slík slys óalgeng. Að auki pirrar fólk sig á sóðaskapnum á gangstéttunum því erfitt getur reynst að stíga ekki ofan í skítinn. Flestir eru þó sammála því að fuglarnir séu samt sem áður skemmtilegir og líflegir. „Mér finnst þeir frábærir, sýna manni að það er eitthvað líf hérna í kringum byggingarnar, bílana og flugvöllinn“ segir Ísabella Ingvarsdóttir, stúdent við HÍ.