Heim Fréttir Fyrsta verk nýrrar List– mílu komið upp á Háskólatorgi

Fyrsta verk nýrrar List– mílu komið upp á Háskólatorgi

Kristján Steingrímur Jónsson/Verk: Georg Guðni Hauksson, Hekla

Á Háskólatorgi má sjá nýtt verk á einum mest áberandi stað háskólans. Það er verkið Hekla 1886-1987 eftir Georg Guðna Hauksson en það er fyrsta verkið sem sýnt er í tilefni nýrrar sýningar á verkum úr safneign Listasafns Háskóla Íslands

Sýningin er áframhald af fyrri List- mílu og mun bera titilinn List- míla tvö. „Ef allt gengur eftir þá opnar sýningin í september,“ segir Kristján Steingrímur Jónsson safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands. 

Guðmunda Andrésdóttir, Þulur, 1972

Yfirstandandi sýning var sett upp í tilefni af 40 ára afmæli Listasafns Háskóla Íslandsafns árið 2020 en safneign listasafnsins samanstendur af 1450 verkum eftir 140 myndlistarmenn og var því efnt í það að sýna hluta af safneigninni á göngum skólans. Til dæmis er í Odda yfirlitssýnig abstraktlistakonunnar Guðmundu Andrésdóttur.

Covid setti strik í reikning fyrstu List- mílunnar

Heimsfaraldurinn hafði þó mikil áhrif á hversu mikið væri hægt að sjá sýninguna. „Það vildi nú ekki betur en að sýningin lokaði daginn eftir opnun vegna Covid. Síðan hefur þessi sýning verið meira og minna lokuð. Þannig þetta fór á allt annan veg en við ætluðum okkur. Okkur tókst samt að fara með hópa í leiðsögn inni á milli sem var ánægjulegt,“ segir Kristján.

Nafn List- mílunnar kemur frá þeirri staðreynd að sýningin er staðsett í fimm byggingum háskólans og þeim tengigöngum sem eru þar á milli þannig þegar gengið er um sýninguna þá er sú ganga sirka ein míla. Sýningin var unnin með Æsu Sigurjónsdóttur, dósent í listfræði, og mun hún einnig koma að næstu List- mílu.

Háskóladagurinn veitti tækifæri til að setja nýtt verk upp

Undanfarin þrjú ár hefur verk Gunnlaug Schevings, Jónsmessudraumar álfakýrinnar, 1964 verið á Háskólatorgi en nú var því skipt út. „Það er svolítið mál að koma þessum verkum upp. Það þarf lyftu og við reiknuðum út að þegar háskóladagurinn er þá er settur borði á vegginn og þá er pöntuð lyfta. Scheving átti bara að vera í eitt ár en svo liðu þrjú ár þangað til að háskóladagurinn væri haldinn með hefðbundnu sniði. Þannig við erum nýlega búin að skila verkinu og notuðum tækifærið til að setja upp Heklu eftir Georg Guðna á síðasta háskóladegi,“ segir Kristján og bætir við að „við vorum óvart með verk Scheving í hálfgerðri gíslingu á veggnum.“