Heim Fréttir Gríðarleg aðsókn í meðferð við köngulóafælni

Gríðarleg aðsókn í meðferð við köngulóafælni

Þórður Örn Arnarson, forstöðumaður sálfræðiráðgjafar

Að fyllast ótta eða viðbjóði við það að sjá köngulær er eitthvað sem margir kannast líklegast við, en köngulóafælni er fyrirbæri sem færri þekkja, en u.þ.b. 6% einstaklinga þjást af köngulóafælni á heimsvísu að sögn Þórðar Arnar Arnarsonar, forstöðumanns sálfræðiráðgjafar Háskóla Íslands.

Meðferð við köngulóafælni er á vegum meistaranema í sálfræði og stendur hún háskólanemum og börnum þeirra til boða. Meðferðin felur í sér 40 mínútna matsviðtal og 90-180 mínútna meðferð í kjölfar viðtals.

Þórður Örn segir að aðsóknin í ár hafi verið vonum framar, 20 pláss eru í boði en rúmlega 50 manns sýndu meðferðinni áhuga. Það voru því mun færri sem komust að en vildu, en að sögn Þórðar hefur aðsóknin aukist gríðarlega frá því í fyrra og stendur til að bjóða aftur upp á meðferðina að ári.

En hver er munurinn á almennri hræðslu og fælni? Samkvæmt lista sem sálfræðirágjöf Háskóla Íslands sendi frá sér nú á dögunum einkennist köngulóafælni af

  • Miklum kvíða eða hræðslu við köngulær
  • Köngulær vekja samstundis kvíða eða hræðslu
  • Einstaklingur forðast oftast köngulær
  • Kvíði eða hræðsla er meiri en köngulær gefa tilefni til
  • Hræðslan hefur verið til staðar í meira en sex mánuði

Góður árangur á skömmum tíma

Árangur meðferðarinnar er góður að sögn Þórðar og flestir þeirra sem sækja meðferðina eiga auðveldara með að sjá og umgangast köngulær að meðferð lokinni og í flestum tilfellum er fælnin horfin að ári liðnu. Meðferð fullorðinna fer fram undir handleiðslu Þórðar Arnar og sér dr Dagmar Kristín Hannesdóttir, lektor við sálfræðideild um handleiðslu meðferðar barna.

Valdeflandi fyrir nemendur

Þórður segir að góður andi ríki hjá meistaranemum í sálfræði þessa dagana, enda er gríðarlega valdeflandi og uppbyggjandi fyrir nemendur að fá tækifæri til þess að sjá skjótan árangur hjá skjólstæðingum sínum. Hann bætir við að meðferð við köngulóafælni sé einföld og góð leið til þess að þjálfa nemendur sem meðferðaraðila og undirbúa þá fyrir starf eftir útskrift.