Stúdentaráð skorar á Háskóla Íslands að endurskoða afstöðu sína gagnvart skrásetningargjaldi skólans. Markmiðið sé að minnsta kosti að lækka gjaldið. Stúdentaráð hefur þó löngum talað fyrir því að afnema gjaldið að fullu. Áskorunin kemur í kjölfar þess að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands hafi ekki farið rétt að við útreikninga á skráningargjaldi háskólans.
Skrásetningargjöld séu í raun skólagjöld
Í yfirlýsingu Stúdentaráðs kemur fram að ráðið hafi um árabil efast um að forsendur sem liggja að baki skrásetningargjaldinu standist lög um opinbera háskóla og með úrskurðinum sé búið að staðfesta þær efasemdir. Lögum samkvæmt eru skrásetningargjöld þjónustugjöld sem aðeins má innheimta fyrir þá þjónustu sem er í raun veitt af hinu opinbera. Samkvæmt niðurstöðum áfrýjunarnefndarinnar byggði háskólaráð skrásetningargjaldið ekki á raunverulegum kostnaði þjónustunnar sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Á meðal kostnaðaliða sem Háskóli Íslands nefnir við sundurliðun gjalda sinna er skipulag kennslu og prófa, ásamt rekstur kennslusviðs. Stúdentaráð metur sem svo að þessir kostnaðarliðir séu órjúfanlegur þáttur kennslu skólans og því sé í raun verið að innheimta skólagjöld.
Hámarksgjöld innheimt af Háskóla Íslands.
Samkvæmt lögum um opinbera háskóla má innheimta skrásetningargjöld allt að 75.000 krónum, sem er sú upphæð sem Háskóli Íslands innheimtir af hverjum nemanda. Sama gjald á við um alla nemendur skólans óháð því hvaða þjónustu nemendur nýta sér.
Stúdentaráð segir að gjaldinu fylgi álögur á nemendur skólans og dragi það úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Jafnframt þykir ráðinu að ekki eigi að leita í vasa nemenda til þess að fjármagna starfsemi skólans. Þess í stað ætti að auka fjárframlög ríkisins til skólans svo hann fái það fjármagn sem til þarf svo starfsemin sé samkvæmt lögum.