Heim Fréttir Kennarar gætu nýtt gervigreind en það er allt bannað

Kennarar gætu nýtt gervigreind en það er allt bannað

Stefnumót við gervigreind, ráðstefna okt2023
Frá setningu ráðstefnunnar um gervigreind

Kennarar geta nýtt sér gervigreindina við að skipuleggja kennsluna í grunnskólum en það er allt bannað. Þetta kom fram í erindi Ragnars Þórs Péturssonar grunnskólakennara og fyrrverandi formanns Kennarasambands Íslands. Ragnar var einn þeirra sem hélt erindi á ráðstefnunni „Stefnumót við gervigreind í menntun“ sem Menntavísindasvið HÍ í samstarfi við Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar hélt í nýliðinni viku.

Ragnar Þór gagnrýndi Persónuvernd vegna takmarkana og strangra reglna sem nemendur búa við varðandi tækni og hugbúnað í skólum. Hann segir stóru tæknifyrirtækin stjórna tækniframförum í skólakerfinu og að þau séu  farin að græða á tækninni í skólunum, á forsendum fyrirtækjanna en ekki á forsendum skólanna.

Á ráðstefnunni voru haldin nokkur erindi um gervigreind, menntun, persónuvernd og mennskuna. Að loknum erindum voru pallborðsumræður og stuttar kynningar fyrir kennara um gervigreind í kennslu. Þar var m.a. farið í hvernig kennarar geti notað gervigreind við gerð kennsluáætlana, tungumálakennslu og gervigreind og hlutverk gervigreindar í námskrárþróun, svo eitthvað sé nefnt.

Tæknibylting gjörbyltir ekki menntun

Í erindi Ragnars, sem hann nefndi „Tíminn líður hratt á gervigreindaröld“ fjallaði hann um tæknibyltingar í skólakerfinu undanfarna áratugi og sagði að því hefði alltaf verið spáð að tæknin myndi bylta menntakerfinu og breyta skólunum. En svo gerðist ekkert, tæknibyltingin léti bíða eftir sér í skólakerfinu. Hann sagði að menntun ætti ekki að snúast um hvernig kennarar geti komið þekkingu til nemenda heldur hvernig nemandinn hugsar. Og að þess vegna muni engin tæknibylting gjörbylta menntun en að hún gæti hjálpað til við að nám ætti sér stað. Hann lagði til að kennarar fengju að nýta tæknina til hagsbóta nemendum í skólastarfi og þannig gætu kennarar tekið valdið úr höndum tæknifyrirtækjanna.