Heim Fréttir Hopp og HÍ

Hopp og HÍ

Bíllausi dagurinn var haldinn 22.september síðastliðinn en markmið hans er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur. Rafskútufyrirtækið Hopp tók þátt í bíllausa deginum og felldi niður startgjald á hjólum sem lagt var á þar til gerðum rafskútustæðum. Eitt af þessum stæðum er við Sæmundargötu, fyrir framan Stúdentakjallarann. Afslátturinn á þessu tiltekna svæði hefur þó haldist óbreyttur síðan 22. september.

Fréttamaður stúdentafrétta athugaði málið og „Hoppaði“ frá Þjóðarbókhlöðunni að Stúdentakjallaranum og lagði í stæðið. Ekkert upphafsgjald var rukkað og kostaði ferðin því 66 krónur í staðinn fyrir 166 krónur.

Nemendur sáttir

Issy Tache sem stundar nám við HÍ og lifir bíllausum lífstíl er ánægð með afsláttinn „Ég legg alltaf hérna við Stúdentakjallarann útaf afslættinum, þetta munar alveg því ég tek Hopp svo oft.“

Guðrún Kristín Jónsdóttir sem er einnig nemandi í HÍ segist hafa tekið eftir þessu nýlega „Ég sá þetta bara í appinu, að þetta væri grænt svæði og prófaði að leggja og bara sá að ég fékk einhvern afslátt, þannig ég legg alltaf hérna.“

Inn á smáforriti Hopp þá tákna græn svæði afslátt og á kosningadögum má til dæmis sjá græn svæði við kjörstaði.

Vinsælt í HÍ

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni hjá Hopp er sama verð á öllu höfuðborgarsvæðinu og engin sérstök tilboð í boði nema á sérstökum dögum.
„Stúdentaafsláttur hefur ekki verið skoðaður sérstaklega og er ekki í boði í augnablikinu, en við erum alltaf að skoða hvað við getum gert til að veita enn betri þjónustu til okkar viðskiptavina.“

Starfsmaður Hopp sagði hjólin vera mjög vinsæl hjá nemendum HÍ.
Lausleg athugun fréttamanns á ferðum Hopp hjóla við háskólasvæðið yfir eina viku, bendir til að um það bil fimmtíu hjól leggi á þessu svæði daglega. Það er þá 5000 krónur á hverjum virkum degi eða 125 þúsund krónur sem hopp hefur ekki fengið síðan á bíllausa deginum. En ástandið helst þó óbreytt.