Starfsmenn Hótel Borgar hafa enn sem komið er ekki farið í verkfall en Lísa Geirsdóttir hótelstjóri segir að verkföll hafi verið boðuð frá og með sjötta mars. Hótelstjórinn segist vona það besta en kveðst vera tilbúin undir það versta.
![](https://studentafrettir.hi.is/wp-content/uploads/2023/02/Lisa.jpg)
„Við erum ekki í verkfalli. Við vorum ekki ein af þeim hótelkeðjum sem áttu að fara í verkfall 28. febrúar. Við erum í góðum málum til sjötta mars eins og staðan er í dag, en ef til verkfalls kemur þurfa allir Eflingarstarfsmenn að fara út úr húsi, það er að segja allir nema stjórnendur og starfsmenn í móttökunni. En við erum búin að gera okkur klár. Það eru bara stjórnendur sem mega vinna, það er að segja hótelstjóri og aðstoðarhótelstjóri og svo eigendur hótelsins, og svo náttúrlega starfsmenn í lobbýinu sem eru ekki að fara í verkfall. Þannig að við yfirmennirnir verðum bara í því að þrífa. Ég er samt bjartsýn á að þetta leysist á næstu dögum. Ég krossa alla vega puttana, því það er mikið bókað og ofboðslega mikið að gera.”
Mikil spenna hefur ríkt í kjaraviðræðum milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og sér ekki fyrir endann á deilunni. Settur sáttasemjari boðaði til fundar klukkan 20 í gærkvöldi en fundurinn virðist hafa strandað á eitt þúsund króna launahækkun ef marka má Stefán Ólafsson sérfræðing hjá Eflingu. Sæþór Benjamín Randalsson, stjórnarmaður Eflingar tjáði sig á Facebook eftir fundinn og var ekki sáttur við niðurstöðuna: „Algjör sóun á kvöldinu mínu. Samtök atvinnulífsins og Halldór Benjamín vilja hvorki semja né fallast á neinar málamiðlanir. Algjörir fasistar, virkjað með gagnsleysi Katrínar og Guðmundar.”