Heim Fréttir Humar birtist í skjóli nætur við Sundhöll Reykjavíkur

Humar birtist í skjóli nætur við Sundhöll Reykjavíkur

Humarinn er skorinn í gangstéttarhellu, fyrir framan Sundhöllina, og er sköpunarverk Hlyns Steinssonar meistaranema í líffræði við Háskóla Íslands. „Ég fór með útskornu helluna í skjóli nætur í byrjun desember og skipti henni út,“ segir Hlynur

Hlynur Steinsson ásamt humarskúlptúrs

Útskorna hellan er hluti af lokaverkefni Hlyns í áfanganum Mannskepnan og önnur dýr sem kenndur er af Kristni Schram og Kötlu Kjartansdóttur. „Áfanginn fjallaði um birtingarmyndir dýra í mannlegu samfélagi og sjónhorn þeirra frá eigin forsendum.“ 

Lokaverkefni áfangans var tvískipt. Annars vegar ritgerð um ómennskt dýr að eigin vali og myndefni mátti fylgja með ritgerðinni. „Í líffræðinni er rosa sjaldgæft að maður fái að gera eitthvað listrænt þannig ég ákvað að grípa tækifærið,“ segir Hlynur. 

Menningarleg tengsl Íslendinga við humarinn eru í hættu

„Ég valdi að skoða menningarleg tengsl milli humra og manna sérstaklega á Höfn í Hornafirði. Þar er sambandið öfgakennt og skrítið, að minnsta kosti sem aðkomumaður,“ segir Hlynur en sérhvert ár er humarhátiðin haldin hátíðleg á Höfn.  

Heimsókn í sundlaugina á Höfn vakti forvitni hjá Hlyni. „Í sundlauginni eru allskonar tilvísanir í humra. Rennibrautin, sem er rauð, heitir Humarinn og í klefunum sýna teikningar af humrum hvernig eiga að haga sér. Humarinn leiðir mann í gegnum sundlaugina,“ segir Hlynur. 

Humrarnir á myndunum eru allir manngerðir og það vakti upp spurningar um tengslin milli manna og humra. „Mig langaði að vekja athygli á sambandi manna og humra í Sundhöllinni því sundlaugin er fallegur staður fyrir þessar tvær tegundir til að mætast,“ segir Hlynur. 

Hlynur veltir þó fyrir sér hvers eðlis sambandið milli manna og humra sé hér á Íslandi þar sem landsmenn hugsa aðallega um humarinn sem fæðu. „Ofveiði á humrinum hefur ollið því að stofninn er hruninn. Ef Íslendingar vilja halda áfram að borða humar, þá þarf að flytja hann inn. Mögulega missum við þessi tengsl við hann í framhaldi af því. Hvað gerist þá við sjálfsmynd þeirra samfélaga sem tengjast humrinum sterkt eins og á Höfn?“ spyr Hlynur. 

„Kannski mun fólk gleyma íslenska humrinum. Því vildi ég greypa hann í stein og minna okkur á fleiri leiðir til að tengjast honum,“ segir Hlynur.

Humarinn hefur vakið mikla lukku meðal gesta sundhallarinnar

Janosch Kratz hönnuður og tíður gestur Sundhallar Reykjavíkur sagði um humarinn: „Um leið og ég tók eftir humrinum vissi ég að hann væri uppáhalds listaverkið mitt í Reykjavík. Venjulega nota ég ekki hringhurðina til að komast út en daginn sem ég sá humarinn var öðruvísi dagur og ég vildi vita meira um hann. Hver gerði hann og af hverju hann væri þarna,“ segir Janosch.