Heim Fréttir Hús íslenskra fræða opnar loks árið 2023

Hús íslenskra fræða opnar loks árið 2023

„Við gerum ráð fyrir að fá það afhent núna í lok árs. Það hefur tafist um nokkra mánuði. Árnastofnun hyggst hefja flutninga á vormánuðum. Byrja þá að flytja bókasafn og koma upp ýmsum búnaði. Síðan verði flutt bæði Árnastofnun og þá starfsmenn háskólans sem fara þangað yfir, næsta sumar,“ sagði Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála hjá Háskóla Íslands,um framkvæmdir við Hús íslenskra fræða.

„Það verður íslenskan, starfsmenn hugvísindasviðs sem fara þangað yfir.“

Fyrsta skóflustungan

Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra og þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, tók fyrstu skóflustunguna 15.mars árið 2013. Sex árum síðar hófst bygging hússins. Nú styttist í að húsið verði tilbúið að fullu.

„Það fer alveg að verða tilbúið. Það er verið að klára ýmis kerfi og frágang. Gert var ráð fyrir því að það yrði afhent núna í byrjun mánaðarins. Við gerum ráð fyrir því undir lok ársins sem við fáum það,“ sagði Kristinn.

Hvaða starfsemi verður í húsinu?

„Húsið verður í notkun af tveimur þriðju hluta af Árnastofnun og einum þriðja af Háskóla Íslands,“ sagði Kristinn um hvernig starfsemi hússins verður háttað.

Ekki er komið í ljós hver sér um rekstur hússins.

„Við vitum ekki hvort HÍ muni taka við þessu húsi til rekstrar eða hvort það verði Árnastofnun. Það á eftir að koma í ljós og gerir það sennilega á næstu dögum.“

Í húsinu verður ýmis þjónusta. Ásamt því verða handritin, sem varðveita forna Íslendingasögu, eddukvæði, konungasögur, fornaldarsögur og kveðskap, til sýnis og varðveitt í glæsilegu rými hússins.

Veitingarekstur og lærdómsaðstaða

„Það er gert ráð fyrir veitingarekstri. Nú veit ég ekki hverjir það verða, það er ekki útkljáð. Það verður þarna fín aðstaða fyrir nemendur sem verða þarna við nám. Með þessu húsnæði opnast miklu meiri möguleiki á að sýna þessar gersemar okkar sem verða geymdar í húsinu. Það verður sýningaraðstaða og stórt bókasafn. Líka les og námsaðstaða fyrir nemendur. Það er einn fyrirlestrarsalur og nokkrar kennslustofur.“

Einnig gefst tækifæri á að taka á móti erlendum ferðamönnum.

„Já ég myndi halda það. Þarna gefst tækifæri á að gera vel í þeim málum.“