Húsnæðisskortur og hár leigukostnaður hefur skapað alvarlegar áskoranir fyrir háskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnmálaflokkar hafa lagt fram ýmis stefnumál til að bæta stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði en margir nemendur segja að úrbætur þurfi að koma hraðar til framkvæmda.
Háskólanemar glíma við mikla erfiðleika á húsnæðismarkaði þar sem framboð er lítið og leiga fer hækkandi. Margir leita í tímabundnar eða ótryggar lausnir, svo sem samvist með foreldrum, leiguherbergi á skammtímamarkaði eða íbúðir þar sem leigusamningar eru óformlegir.
Samkvæmt Félagsstofnun stúdenta (FS) er nú þegar mikil eftirspurn eftir stúdentaíbúðum, en stofnunin rekur um 1.610 íbúðir sem fyllast jafnan fljótt. Samhliða er verið að kanna möguleika á frekari uppbyggingu en það tekur tíma. Umsóknir voru mun fleiri en íbúðir til leigu og enduðu 800 á biðlista.
Stjórnmálaflokkar leggja fram tillögur
Í núverandi kosningabaráttu hafa flestir flokkar lagt fram áherslu á mikilvægi þess að bæta aðgengi ungs fólks að húsnæði. Röskva tók nýverið röð viðtala við fulltrúa stjórnmálaflokka. Þar var spurt út í húsnæðis- og umhverfismál, með sérstakri áherslu á aðgengi háskólanema að öruggu og viðráðanlegu húsnæði.
Stjórnmálaflokkarnir lýstu yfir mismunandi leiðum til að bregðast við húsnæðisvandanum samkvæmt viðtalinu við Röskvu:
Miðflokkurinn lagði áherslu á að halda í „íslenska drauminn“ og fólk sem er að borga 300.000 kr. í leigu, nú þegar og getur borgað það í lánið, á að geta fengið það lán.
Viðreisn taldi þetta vera eitt stærsta baráttumálið í þessum kosningum og þau vilja ná tökum á vöxtum og verðbólgu, það er þeirra stærsta mál. Þau vilja ná tökum á ríkisfjármálum þannig að fólk geti strax séð lækkun á verðbólgu og vöxtum.
Píratar ætla að efla uppbyggingu óhagnaðardrifins og niðurgreidds húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Bæta réttindi leigjenda og hækka skatta á íbúðir þar sem enginn á lögheimili.
Lýðræðisflokkurinn setur áherslu á ábyrga stjórnun ríkisfjármála, lægri vexti, lægri skatta og aukið lóðaframboð.
Sjálfstæðisflokkurinn vill auka framboð, skylda sveitafélögin til byggja hraðar, tryggja séreignasparnaðarleiðina bæði fyrir fyrstu kaup og til að greiða niður húsnæðislánin og að lokum lækka vexti.
Vinstri grænir ætla að auka framboð og hækka verð með því að herða tökin á Airbnb, skattleggja aðra, þriðju, fjórðu og fimmtu eign af því húsnæði er heimili en ekki fjárfesting. Þau ætla að verðstýra leiguverði, setja á leigubremsu og byggja meira.
Sósíalistaflokkurinn segir að það þurfi að byggja félagslegar, óhagnaðardrifnar og fjölbreyttar íbúðir, meðal annars nemendagarða, og tryggja að enginn greiði meiri en fjórðung af tekjum sínum í húsnæðiskostnað. Þangað til verður að auka húsnæðisstuðning hvort sem það er til leigjenda eða til dæmis fyrstu kaupenda.
Samfylkingin er með plan í uppbyggingu húsnæðis, bæði bráðaaðgerðir og langtímaaðgerðir sem snúa að nýrri nálgun í skipulagsmálum að auðvelda fólki að kaupa húsnæði. Líka byggja upp fjölbreytt búsetuform eins og stúdentaíbúðir.
Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins komu ekki í viðtal hjá Röskvu en má sjá á heimasíðu þeirra hver stefnumál þeirra eru í húsnæðisvandanum. Stefna Framsóknar tekur mið af sveigjanleika á fasteignamarkaði milli svæða og auknum stuðningi við fyrstu kaupendur, meðal annars með áframhaldandi nýtingu séreignarsparnaðar til húsnæðiskaupa. Auk þess vilja þau bæta húsnæðisöryggi leigjenda og einfalda kerfið fyrir leigjendur. Flokkur fólksins leggur áherslu á að bæta stöðu þeirra sem eru í húsnæðisvanda, með sérstakri áherslu á félagslegt húsnæði. Flokkurinn hefur gagnrýnt skort á lóðum og þéttingu byggðar í Reykjavík sem hefur skapað spennu á fasteignamarkaði. Hann vill auka lóðaframboð og byggja hagkvæmara húsnæði utan miðborgarinnar.
Viðtölin varpa ljósi á tillögur flokkanna um hvernig mæta megi aukinni eftirspurn eftir húsnæði fyrir stúdenta og ungt fólk, meðal annars með lánum, aukinni uppbyggingu félagslegs húsnæðis og einföldun á regluverki byggingaraðila.
Upptökur má nálgast á TikTok-síðu Röskvu, þar sem fram koma ýmsar hugmyndir stjórnmálaflokkanna sem ætlað er að taka á húsnæðisvandanum. Húsnæðismál ungs fólks eru áberandi í umræðu um hagsmuni háskólanema, enda ljóst að þetta er málefni sem hefur áhrif á aðstæður þeirra til náms og daglegs lífs.