Það er fátt annað en möguleiki á eldgosi sem hefur komist að í huga Íslendinga undanfarnar vikur. Á kaffistofum landsins hafa skapast umræður, líkt og hvort og hvenær muni gjósa og er hugur flestra hjá Grindvíkingum, sem standa frammi fyrir stórum áskorunum og óhugsandi aðstæðum, líkt og að hafa einungis í kringum fimm mínútur til þess að taka saman eigur sínar og flýja húsnæði sitt.
Staða Grindvíkinga er enn óbreytt, þrátt fyrir að íbúar hafi mátt fara til Grindavíkur að sækja fleiri nauðsynjar þá er ekki enn komið að því að Grindvíkingar megi snúa aftur til síns heima og enn er óvíst hvenær svo verður.
Blaðamaður Stúdentafrétta fór og ræddi við nemendur og kennara um hvað þau myndu taka með sér ef þau stæðu frammi fyrir þessum sömu áskorunum, að hafa einungis fimm mínútur til þess að taka eigur sínar og yfirgefa húsnæði sín.
Egill Aaron Ægisson, meistaranemi í fjölmiðla og boðskiptafræði
„Ég tæki símann minn og tölvuna, ásamt því að grípa með mér fatnað og aðrar nauðsynjar, eins miklu og ég kæmi í tösku. Ég myndi einnig taka með mér ljósmyndir og eins margar bækur og ég gæti.“
Anna María Skaftadóttir, meistaranemi til starfsréttinda í félagsráðgjöf
„Ég myndi byrja á að taka Tomma, köttinn minn og koma honum í búrið sitt, ég veit að það myndi taka mig smá tíma þar sem að hann er alls ekki hrifinn af búrinu sínu. Ég myndi svo grípa myndaalbúm, sem inniheldur margar dýrmætar minningar, ásamt því að troða fötum í tösku. Maður veit samt aldrei hvað maður myndi gera eða hvernig maður bregst í raun og veru við í svona erfiðum aðstæðum.“
Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild
„Það er mjög erfitt að setja sig í þessi spor, margir vina minna eru í þeim og ég dáist að æðruleysi þeirra. En ef ég væri í þeirra sporum myndi ég taka ákveðnar myndir, skartgripi sem ég hef erft, tölvubúnað, fatnað og ég veit að það hljómar furðulega en ég tæki einnig veiðistangirnar mínar.“
Sæunn Valdís Kristinsdóttir, meistaranemi í blaða og fréttamennsku
„Ég myndi byrja á að grípa skólatöskuna mína, í henni er tölvan mín, síminn, veskið, bækurnar mínar og aðrir persónulegir munir sem ég nota mikið. Þar á eftir færi ég inn í geymslu til þess að sækja bók sem langamma mín gaf mömmu minni, sem hún svo seinna gaf mér. Bókin er mér mjög kær og dóttir mín heitir einmitt eftir aðalpersónu bókarinnar. Ég myndi einnig grípa með mér ljósmyndir ásamt fleiri bókum sem eru mér kærar. Ég myndi svo enda á að setja fatnað í ræktartöskuna mína sem inniheldur nú þegar fleiri hluti sem ég nota mikið, ásamt flakkara sem inniheldur myndir og annað sem ég þarf að hafa með mér. Á hlaupum út um dyrnar myndi ég grípa hamsturinn okkar með og ég er að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að dóttir mín fylgi mér út með sitt mikilvægasta dót.“
Stúdentaráð Háskóla Íslands sendi frá sér tilkynningu nú á dögunum með hlýjum kveðjum til Grindvíkinga, ásamt upplýsingum um hvert hægt sé að snúa sér til þess að fá viðeigandi aðstoð. Grindvíkingar geta leitað aðstoðar á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs varðandi aukinn sveigjanleika í námi, ásamt því að sálfræðiþjónusta á vegum Nemendaráðgjafar stendur öllum nemendum Háskóla Íslands til boða, þeim að kostnaðarlausu.
Stúdentafréttir senda Grindvíkingum einnig hlýjar kveðjur.