Blaðamenn Stúdentafrétta fóru á stúfana í heilsuræktarstöð World Class í Vatnsmýri. Markmiðið var að komast að því hvers vegna háskólanemar kjósa World Class fram yfir Háskólaræktina.
Það er alltaf ákveðin lykt inni í heilsuræktarstöðvum. Einhver blanda af gúmmíinu á gólfinu, lóðunum, svita, ilmvatni og þrifefnum. Ég verð sérstaklega vör við hana þar sem ég stend innan um fáklætt fólk sem rífur í lóðin, sjálf kappklædd og ekki komin til neins annars en að trufla.
Hingað erum við mætt, þrír nemar í blaðamennsku, vegna þess að á okkur brennur spurning.
Nemendum og starfsfólki Háskóla Íslands býðst aðgangur að íþróttahúsi Háskólans, Háskólaræktinni. Árskort kostar 12000 krónur, þ.e. þúsund krónur á mánuði. Margir háskólanemar kjósa þó heldur að kaupa kort hjá heilsuræktarrisanum World Class. Þar býðst nemendum tímabundinn samningur á 8800 krónur á mánuði eða þriggja mánaða kort á 37500 krónur.
Verðmunurinn er gríðarlegur. Hvers vegna kjósa þeir sem oft eru kallaðir „fátækir námsmenn“ að spandera stórfé í kort í ræktina?
Fyrsta hindrun
Þess vegna erum við stödd hér, við erum í leit að svörum. Fyrsta hindrunin er að komast inn í tækjasalinn. Til þess þarf að komast í gegnum augnskanna sem hleypir manni ekki í gegn nema maður borgi í sjóðinn og komi annaðhvort „aðeins nær“ eða fari „aðeins fjær“. Ekkert okkar er með ræktarkort svo einhvern veginn þurftum við að sannfæra starfsmann í móttökunni um að hleypa okkur inn.
„Hæ, við erum frá Háskólanum. Við erum að gera smá rannsókn, megum við fara inn í tækjasalinn?“ Ég set upp mitt sakleysislegasta bros.
Móttökudaman lítur efins á mig. „Til þess að taka upp?“ spyr hún.
„Nei nei, við ætlum ekki að taka neitt upp,“ segi ég.
„Já já, ekkert mál,“ segir hún. Ég sé að hún er efins svo við drífum okkur inn áður en henni snýst hugur.
Þegar inn er komið rennur upp fyrir okkur að nú þurfum við að trufla fólk í ræktinni. Við bjuggumst hálfpartinn ekki við að okkur yrði hleypt inn og vorum ekki búin að hugsa lengra en bara hingað. Ætluðum að tækla eitt vandamál í einu.
Við göngum inn í tækjasalinn dúðuð, klædd í úlpur og klifuð skólatöskum. Ég finn strax hvað ég er utanaðkomandi. Mér líður smá eins og ég sé allsber á Háskólatorgi. Sterk tilfinning um að ég eigi ekki að vera hérna. Það er samt enginn að pæla í okkur.
Fyrsta fórnarlamb
Ræktin er fámennari en við höfðum vonað og langflestir hlaupa á hlaupabrettum. „Við getum nú ekki farið að trufla fólk á hlaupabretti,“ segir stallsystir mín. Ég er sammála, það væri galið. Við ráfum um í örugglega átta sekúndur. Ég ákveð að taka af skarið. Sé strák í símanum, greinilega í pásu milli setta. Ég geng til hans.
„Hæ, ertu í Háskólanum?“ spyr ég og krossa fingur.
„Já,“ svarar hann, hálfhissa.

Þetta fyrsta fórnarlamb mitt heitir Blazej. Hann er á fyrsta ári í mastersnámi í byggingaverkfræði og býr í miðbænum.
„Hvað tekur þú í bekk?“ spyr ég. Okkur fannst þetta skemmtileg spurning þegar við undirbjuggum okkur en þegar ég spyr hann finnst mér erfitt að hljóma ekki eins og ég sé að reyna við hann.
„Öööö pfff, sko ég veit það ekki,“ segir Blazej. „Ég var að byrja aftur í dag eftir árspásu, þannig að ég er ekki viss. Segjum bara 40 kíló.“
En hvers vegna World Class en ekki Háskólaræktin?
„Það er góð spurning. Ég hef aldrei farið svo ég veit ekki hvernig hún er. Ég hef heyrt að hún sé alveg góð, er það ekki? Og örugglega ódýrari en World Class. Ég ætti kannski að prófa Háskólaræktina.“
Ég þakka honum fyrir að hafa nennt að tala við mig og leita að næsta fórnarlambi. Ég verð mjög meðvituð um að ég þrammi þarna um á útiskóm.
Sundlaugar og sveigjanleiki
Katrín Vala læknisfræðinemi heldur örugglega að ég sé einhver sem hún á að þekkja þegar ég geng til hennar þar sem hún er að lyfta, vinka og segi hæ. Hún tekur niður heyrnartólin og ég er fegin að hún nenni að tala við okkur.

Hún býr í Árbænum og segist einhvern tímann hafa tekið 40 kíló í bekk.
Af hverju ekki Háskólaræktin?
„Ég hef bara aldrei pælt í því að hún væri til “ segir Katrín og hlær.
„Svo er líka þreytt að þurfa að keyra alltaf hingað. En aðalatriðið eru sundlaugarnar, ég fer mjög mikið í sund.“
Við gripum Sigríði Elvu, Siggu, þegar hún þýtur úr klefanum með blautt hár, vel klædd fyrir væntanlegt óveður og með skóladót.
„Ertu að drífa þig?“ spyr ég.
„Nei, ég er að fara í tíma hérna rétt hjá eftir tíu mínútur,“ svarar Sigga. Hún er annars árs nemi í lífefna- og sameindalíffræði.
„Hvað tekur þú mikið í bekk?“ spyr ég.
„Guð minn góður, ógeðslega ærumeiðandi. Ég held það séu bara 25 kíló sko,“ segir hún hálf vandræðaleg.
Sigga býr á Akureyri, þess vegna kýs hún áskrift í World Class. „Það er þægilegt að geta farið í ræktina þar líka,“ segir hún.

Við fögnum sigri þegar við göngum úr Grósku. Fegin að hafa náð tali á einhverjum háskólanemum og ánægð með ræktarferð þar sem við sluppum við að lyfta einu einasta lóði.
Okkur tókst kannski ekki að afhjúpa einhverja algilda ástæðu fyrir því að námsmenn greiði háar upphæðir fyrir World Class kort, þrátt fyrir að ódýrari kostur standi þeim til boða. En við komumst vissulega nær. Fyrir suma eru það sundlaugarnar eða sveigjanleikinn sem heillar, fyrir aðra gæti World Class verið ákveðið stöðutákn. Svo er fólk sem hefur hreinlega aldrei pælt í því að það sé annar valkostur – Háskólaræktin.