Heim Fréttir „Illa upplýst umræða getur gert illt verra“

„Illa upplýst umræða getur gert illt verra“

Úr pallborðsumræðu, nöfn frá vinstri. Pia Hansson, Magnea Marinósdóttir, Kári Hólmar Ragnarsson, Guðmundur Hálfdánarson og Þórir Jónsson Hraundal.
Úr pallborðsumræðu. Frá vinstri. Pia Hansson málstofustjóri, Magnea Marinósdóttir, Kári Hólmar Ragnarsson, Guðmundur Hálfdánarson og Þórir Jónsson Hraundal.

„Stúdentar hafa gott að því að taka þátt í allri upplýstri umræðu og þar ættu engin efni að vera undanskilin“ sagði Guðmundur Hálfdánarsonar, sem er prófessor í sagnfræði og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar í fyrirspurn um þátttöku stúdenta um flókin og viðkvæm málefni.

Guðmundur var viðmælandi í pallborðsumræðu á opnum fundi vegna átakanna á Gaza, fundurinn fór fram í Háskóla Íslands á miðvikudaginn var. Sérfræðingar frá mismunandi fræðisviðum komu þar fram og deildu þekkingu sinni. Guðmundur lýsti að markmið fundarins væri að styðja við og stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu um eitt mikilvægasta deilu- og átakamál samtímans.

Að upplýsa almenning

Nýlegir atburðir í deilum Hamas og Ísraels hafa vakið mikla athygli. Þar á meðal hjáseta Íslands í atkvæðagreiðslu Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé. Nýleg rannsókn Maskínu sýndi fram á að 71% landsmanna voru ósáttir með ráðstöfun á atkvæði Íslands. Til að upplýsa stúdenta og aðra borgara betur um viðfangsefnið var efnt til opins fundar í HÍ.

Fjölmennt var á fundinn sem fór fram í Odda. Lýst var yfir áhyggjum af átakasvæðinu og lítilli trú á samkomulagi milli deiluaðila á næstunni. Margir spurningar bárust frá fundargestum og komust færri að en vildu. Viðbrögð úr salnum leyndu sér ekki, það var mikill áhugi á málefninu, en það hljómaði tortryggni gagnvart komandi tímum. Allt málflutningsfólk gerðu vel í því að skýra átökin frá sögulegu-, lögfræðilegu, pólitísku og hernaðarlegu sjónarmiði. Þó næstu skref átakanna væru enn í óvissu voru allir sammála um að ólíklegt sé að núverandi leiðtogar Hamas og Ísraels geti samið um frið, þar sem hvorugir aðilar hafa áhuga á tveggja ríkja lausn.

Við fyrirspurn í lok fundar var svarað hvað almenningur gæti gert til að leggja sitt af mörkum til að styðja til friðar. Þar var nefnt mikilvægi þess að halda umræðunum á lofti og þann valkost að sniðganga ýmsar vörur. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti árið 2015 að sniðganga vörur framleiddar í Ísrael en vakti tillagan mikil viðbrögð og ákvað borgarstjórn að draga tillöguna til baka.

Umræðan skal vera uppbyggileg og af virðingu

Magnea Marinósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og sérfræðingur í jafnréttismálum segir menntastofnanir bera ábyrgð á því að skapa öruggan og málefnalegan vettvang til að ræða málefni líðandi stundar. Jafnvel í málefnum sem geta verið tilfinningaþrungin eins og Palestínuátökin.

Magnea Marinósdóttir

Málefnið er flókið og viðkvæmt en Magnea telur að það sé mikilvægt að stúdentar taki þátt í umræðu líðandi stundar. Hins vegar græðir enginn á illra upplýstri umræðu eða einhliða. Því er mikilvægt að kynna sér sögu átakanna eins vel og völ er á: „Illa upplýst umræða getur gert illt verra og þá er stundum betra heima setið en af stað farið. Hins vegar er staðreyndin sú að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa alla tíð kallað fram átök í umræðunni og þá er gott að vita hvaðan fólk er að koma“.

Áhugasamir sem vilja kynna sér efnið og leita sér fróðleiks eiga það til að rekast á mikið af villandi upplýsingum, líkt og kemur fram í grein NBC. Magnea lýsir því að það sé erfitt að rekja rangar upplýsingar á samfélagsmiðlum og því þarf að vera gagnrýnn á heimildir: „Út frá hvaða sjónarhorni og gildum er þeir sem deila upplýsingum að skoða málin. Eru þau sem dæmi að kynna sér átökin út frá sögunni og þá hvaða sögu, hugmyndum um réttlátan frið eða er þeirra sjónarhorn að annað hvort Palestínuarabar eða Gyðingar eigi einfaldlega meira tilkall til hins sögulega Palestínusvæðis. Það í hvaða farveg umræðan fer er að miklum hluta háð sjónarhorninu og gildum þeirra sem eiga samræðuna. Auðvitað hefur nálægðin við veruleika átakanna áhrif, þ.e. hvort þú ert Palestínumaður eða kona, Gyðingur eða Ísraelsbúi. Hin okkar þurfa einnig að taka tillit til þess“.

Við umræðu á málefni sem þessu geta nemendur og aðrir haft ólíkar skoðanir. Magnea bendir á tryggja skal að umræðan haldist uppbyggilegt og af virðingu. Það er áhrifaríkara að ræða mál út frá staðreyndum og rökstuddum skoðunum. Vera málefnaleg en ekki persónuleg: „Halda sig við málefnin en fara ekki í manninn þegar mál eru rædd. Svo er líka mikilvægt að fólki sýni hvert öðru virðingu, aðgát sé höfð í nærveru sálar og stundum er gott að vera sammála um að vera ósammála“.

Guðmundur Hálfdánarson

Guðmundur Hálfdánarson tók undir með orðum Magneu: „Fólk þarf að kynna sér málið og mynda sér eigin skoðun á grunni gildra upplýsinga. Þegar kemur að þessu máli er það stundum erfitt vegna þess að hitinn í umræðunum er mikill og gjáin á milli skoðana stór. Eðli málsins samkvæmt eru skoðanir skiptar og mestu skiptir að fólk geti rætt af alvöru og yfirvegun um viðkvæm deiluefni. Mestu skiptir að fólk reyni að skilja og virða afstöðu og sjónarhorn annarra, reyna að forðast innihaldslausar upphrópanir og samsæriskenningar“.

Samkvæmt Alþjóðamálastofnun eru fleiri fundir á dagskrá. Áhugasamir geta hins vegar nálgast upptöku af eftirfarandi fundi hér.