Heim Fréttir Kennir tvítyngdum krökkum í Kúveit

Kennir tvítyngdum krökkum í Kúveit

Jóhanna María útskrifast sem kennari /aðsend
Jóhanna María Bjarnadóttir kennari /aðsend
Jóhanna hlýtur meistagráðu frá Háskóla Íslands /aðsend

Jóhanna María Bjarnadóttir er við það að ljúka fyrstu önninni sinni sem umsjónarkennari í Kúveit. Hún útskrifaðist síðastliðið vor með meistaragráðu í kennslu frá Háskóla Íslands. Þá gat hún sótt um leyfisbréf til að mega starfa sem grunnskólakennari en hún hefur lengi vitað að hún vilji starfa á sviðinu.

„Mamma mín hefur verið kennari síðan ég man eftir mér og ég hef fengið að fylgjast með henni í kennslustundum af og til síðustu 20 ár. Mér fannst líka svo skemmtileg tilhugsun að vinna í bekkjarkerfi eins og er í grunnskólum.“

Jóhanna fór í skiptinám til Egebjerg í Danmörku á fyrstu önninni sinni í grunnnáminu. Þar kynntist hún því fyrst hvernig alþjóðaskólar starfa. Hún var heilluð alveg um leið og ákvað að velja sér áfanga í náminu þannig að henni væru allir vegir færir erlendis jafnt sem á Íslandi. 

„Mig hafði alltaf langað að vinna erlendis en fannst ég kannski hafa útilokað möguleikann á því þegar ég skráði mig í kennaranámið hérna heima. Svo fékk ég að heimsækja alþjóðaskóla úti og fann þá að ég gæti vel ímyndað mér að vinna í svipuðu umhverfi og við það opnuðust nýjar dyr.“

Kennaranámið þróast ekki nógu hratt

Í Háskóla Íslands er skylda að sinna starfsnámi samhliða öðru ári í meistaranámi í kennslu. Jóhanna sótti um og fékk starf í Alþjóðaskólanum á Íslandi sem er til húsa í Sjálandi í Garðabæ. Þar var hún umsjónarkennari tæplega 20 krakka á yngsta stigi. Börn sem stunda nám í alþjóðaskólum eru oftar en ekki að flytja reglulega og þess vegna sjaldan lengur en tvö ár í senn í sama skóla. Alþjóðaskólinn á Íslandi er einn þeirra skóla sem bjóða upp á tvítyngda braut og er krökkunum kennt á íslensku og ensku sitt á hvað.

„Það getur alveg verið krefjandi að skipta á milli tungumálanna en mér fannst ég ná því frekar fljótt enda eru flestir Íslendingar góðir í ensku og þess vegna frekar náttúrulegt að þýða jafnóðum í huganum.“

Gott teymi getur skipt sköpum í nýju umhverfi og Jóhanna segist sérstaklega þakklát fyrir hversu vel var tekið á móti henni í Alþjóðaskólanum. Þar hafi hún lært alla helstu þætti sem er mikilvægt að kunna og gerðu henni kleift að halda áfram að vaxa í starfi. Það er mikill skortur á menntuðum kennurum á Íslandi og betra utanumhald telur Jóhanna geta bætt úr því. 

„Ef það væru meiri tengsl á milli námsins og gólfsins væru færri sem myndu eiga erfitt með að aðlagast í starfi rétt eftir útskrift. Góður og reynslumikill kennari getur haldið utan um nýja kennara fyrstu annirnar og þannig séð til þess að allt fari vel af stað. Starfið þróast ekkert smá hratt og kennaranámið heldur bara ekki í við það.“

Haldið austur á bóginn

Starfið í Sjálandinu varð einungis til þess að auka áhuga Jóhönnu á alþjóðlegum grunnskólum. Hún hóf því strax á útskriftarönninni að sækja um störf erlendis. Nokkur lönd komu til greina og svörin streymdu inn. Loks varð Kúveit fyrir valinu, lítið land við Persaflóa, sem þó er einn stærsti olíuframleiðandi heims.

Umsjónarstofan í Kúveit /aðsend

Hún starfar núna sem umsjónarkennari krakka í 3. bekk en flest þeirra eru frá Kúveit eða nágrannalöndum og tala því arabísku.

„Það er stundum óþægilegt að tala bara annað tungumálanna sem er kennt á. Heima var kennt á íslensku og ensku en hérna þarf ég bara að kunna ensku þó að krakkarnir tali flest líka arabísku. Þau kannski segja eitthvað sín á milli sem ég skil ekki eða kvarta í mér yfir því að þau séu kölluð eitthvað sem ég kann ekki að þýða.“

Kennararnir í skólanum sem Jóhanna vinnur í eru margir hverjir frá svæðinu en einnig eru sumir komnir lengra að eins og hún sjálf. Hún er með þeim allra yngstu enda aðeins 24 ára gömul. Þó að kennaranámið sé mismunandi eftir löndum eiga þau það öll sameiginlegt að vilja það sem er börnunum fyrir bestu. Sífellt algengara er að foreldrar setji út á kennslu og virðist það stundum gleymast hversu mikla aukavinnu flestir kennarar leggja í nám barnanna sem þeir kenna.

„Þessi aukavinna er kannski ekki alltaf augljós enda felst hún helst í óteljandi tímum í yfirvinnu um helgar og eftir að börnin eru sótt. En við erum langflest, þvert á mismunandi bakgrunn í námi eða starfi, að gera okkar besta með hag barnanna fyrir brjósti.“

Starfið tekur á sig margar myndir

Nemendur sýna þakklæti í garð kennara /aðsend

Í Kúveit er raunin sú að mörg heimili ráða barnfóstru sem sér þá um helstu heimilisverk. Börnin verja oft fleiri klukkutímum með umsjónakennaranum sínum og barnfóstru en eigin foreldrum.

„Kennarar eru farnir að sinna hlutverki sálfræðings, greiningaraðila og foreldris í sumum tilfellum. Þetta starf tekur á sig endalaust margar myndir og við erum sífellt að aðlagast. Það eru ákveðnar kröfur sem við uppfyllum í starfi en svo erum við mjög gagnrýnin á okkur sjálf.“

Jóhanna telur mega bæta viðhorf fólks til kennarastéttarinnar og breytinga vera þörf í uppsetningu kennaranámsins. Nokkrar minniháttar breytingar gætu orðið til þess að stéttin blómstri.