Heim Fréttir Krefjast þess að umferðaröryggi verði bætt

Krefjast þess að umferðaröryggi verði bætt

Skilti Vöku og Röskvu við Sæmundargötu. Stúdentafréttir/Ísabella

Stúdentahreyfingin Röskva setti upp skilti með ákalli eftir gangbrautum yfir Sæmundargötu og Suðurgötu og hefur Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta tekið undir það. Skiltin voru sett upp á sunnudagskvöld í tilefni Evrópsku Samgönguvikunnar sem nú stendur yfir.

S. Maggi Snorrason, sem er í málanefnd Röskvu og meðal skipuleggjanda Samgönguviku Röskvu, segir markmiðið vera að bæta öryggi gangandi vegfarenda. Gangbrautir séu á báðum götum en þó mikið úr leið nemenda sem ganga á milli bygginga. Skiltin tvö voru sett upp á þeim stöðum þar sem Röskva vill fá gangbrautir.

Fulltrúar Röskvu hafa rætt málið við fulltrúa Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Vegagerðina. Björn Auðunn Magnússon, deildarstjóri reksturs fasteigna, segir málið alfarið á vegum Reykjavíkurborgar. Fulltrúar Röskvu hafa fengið þau svör að Vegagerðin vilji ekki fara í málið þar sem umferð gangandi vegfarenda yfir þessar götur bendi ekki til þess að þörf sé á því. Fulltrúar Röskvu telja hinsvegar Vegagerðina vanmeta fjöldann.

Tugir slysa hafa átt sér stað á háskólasvæðinu frá 2014-2024 samkvæmt slysakorti Samgöngustofu þ.m.t. á Sæmundar- og Suðurgötu. Fá slys hafa orðið á milli fólksbifreiða og gangandi eða hjólandi vegfarenda.

Maggi segir eitt markmiðanna vera að háskólasvæðið sé „fólks- og gönguvænt.“ Undanfarin ár hafi þau barist fyrir aukinni götulýsingu og gangstétt við Grósku, sem Reykjavíkurborg hafi tekið vel undir. Þau muni funda með Reykjavíkurborg í næstu viku og séu vongóð að borgin taki vel undir kröfur þeirra.