Heim Fréttir Lestur á Laxness ekki á útleið í HÍ

Lestur á Laxness ekki á útleið í HÍ

Mynd af Halldóri Laxness að hlæja.
Halldór Kiljan Laxness, Nóbelsskáld Íslendinga. Mynd: Reykjavík Grapevine

Mörg hafa áhyggjur af því að nemendur séu að missa tengsl við stærsta skáld þjóðarinnar en Háskóli Íslands hefur aðra sögu að segja. Þar lifir Laxness áfram í kennslu og áhugi ungra nemenda heldur nafni hans á lofti. Umræðan um stöðu Halldórs Laxness í námskrám framhaldsskóla blossaði upp eftir að Morgunblaðið greindi frá því nýlega að innan við þriðjungur framhaldsskólanema læsi nú bók eftir Nóbelsskáldið í skyldunámi.

Bara aumingjavæl

Mynd af Fjólu Gerði Gunnarsdóttur, nemandi á 1. ári í íslensku við Háskóla Íslands.
Fjóla Gerður Gunnarsdóttir, nemandi á 1. ári í íslensku við Háskóla Íslands. Mynd: Myrkrahöfðingjar Menntaskólans við Hamrahlíð.

Þrátt fyrir að bækur Halldórs Laxness hafi smám saman horfið úr skyldunámi í framhaldsskólum landsins sýna ungar raddir í HÍ að áhuginn á verkum hans sé svo sannarlega enn til staðar. Fjóla Gerður Gunnarsdóttir, nýnemi í íslensku við Háskóla Íslands, segist ekki skilja hvers vegna kennarar haldi að ungt fólk ráði ekki við texta skáldsins. „Hver viti borinn unglingur getur alveg lesið þetta,“ segir Fjóla þegar blaðamaður spyr hvort bækur Laxness séu of erfiðar. „Þetta er bara aumingjavæl,“ segir hún ákveðin.

Fjóla útskrifaðist úr Menntaskólanum við Hamrahlíð í vor, þar sem hún las fimm skáldsögur eftir Laxness í valáfanga, yndislestri og skylduáfanga. Nemendurnir sjálfir báðu um að fá valáfanga um Halldór Laxness aftur á dagskrá eftir að áfanginn hafði ekki verið kenndur í einhver ár: „Við söfnuðum undirskriftum og fengum áfangann kenndan aftur. Við sátum öll saman á einu löngu borði í tímanum. Þetta varð eiginlega bara eins og Laxness bókaklúbbur,“ segir Fjóla. 

Í MH las Fjóla bækurnar Sjálfstætt fólk, Sölku Völku, Heimsljós, Íslandsklukkuna og Brekkukotsannál. Í frítíma sínum hefur hún líka lesið Gerplu og Kristnihald undir jökli.

Málheimur skáldsagna Laxness smátt og smátt fjarlægari

Mynd af Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus í íslenskri málfræði
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði. Mynd af Facebook.

Prófessor emeritus í íslenskri málfræði við HÍ, Eiríkur Rögnvaldsson, hefur lagt orð í belg í Laxnessumræðuna og telur vandann liggja dýpra og vera hluta af langri þróun. Í pistli sínum í Facebook-hópnum „Málspjall“ segir hann að meginorsökin sé ekki að Laxness sé of erfiður eða að kennarar vanræki hann, heldur að unga fólkið lesi almennt miklu minna en áður: „Að því marki sem lesskilningur og orðaforði hefur minnkað er það fyrst og fremst vegna breytinga á samfélaginu, einkum minnkandi bóklestrar,“ skrifar Eiríkur.  

Í samtali við blaðamann segir Eiríkur að minnkandi lestur á verkum Halldórs Laxness endurspegli frekar breytt samfélag og mál heldur en áhugaleysi eða lakari lesskilning ungs fólks. „Þjóðfélag og málheimur skáldsagna hans verður smátt og smátt fjarlægari,“ segir Eiríkur. „Það má ekki gleyma því að Sjálfstætt fólk er meira en níutíu ára gömul bók og þjóðfélagsbreytingar frá þeim tíma eru gífurlegar.“ 

Eiríkur bendir á að þó að verkið sé sígilt og eigi enn fullt erindi við samtímann þurfi bæði nemendur og kennarar að leggja meira á sig til að tengjast textanum en áður. „Það stafar ekkert endilega af verri lesskilningi en áður heldur af því að textinn er orðinn fjarlægari nemendum vegna breytinga á þjóðfélagi og málheimi, en við það bætist að nemendur lesa minna af bókum en áður.“

Ekki óafturkræf þróun

Eiríkur telur ekki að þróunin sé óafturkræf og að það sé hægt að auka lestur á Laxness í skólum en þá yrði að verja meiri tíma í kennsluna. Honum þykir skipta meira máli að auka lestur almennt, bæði hjá börnum sem og foreldrum, þar sem foreldrar móta umhverfi barna sinna.

Mynd af Halldóri Laxness umkringdum bókum.
Halldór Laxness umkringdur bókum. Mynd: innansveitarkronika.is

Að hans mati er of seint að byrja á því í framhaldsskólum. „Við þurfum að byrja miklu fyrr. Það þarf að stórauka framboð barna- og ungmennabóka á íslensku.“ segir Eiríkur og bætir við að ríkið myndi þurfa að styrkja slíka útgáfu myndarlega. Eiríkur leggur jafnframt áherslu á ábyrgð foreldra: „Ef börn sjá foreldra sína aldrei lesa bækur eru ekki miklar líkur á að þau fái áhuga á lestri.“ Hann segir að þá myndist vítahringur. Ef núverandi kynslóð les ekki verður næsta kynslóð enn fjarlægari bókmenntunum. 

Laxness lifir áfram í námskeiðum Háskóla Íslands

Mynd af Ástu Kristínu Benediktsdóttur, dósenti í íslenskum samtímabókmenntum.
Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent í íslenskum samtímabókmenntum. Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent í íslenskum samtímabókmenntum við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, finnst Halldór Laxness tvímælalaust vera mikilvægur höfundur.

Í samtali við blaðamann sagði Ásta að kennarar væru vissulega að vinna eftir námskeiðslýsingum og hæfniviðmiðum af ýmsu tagi en val á textum Laxness helgast oft af því að þeir kennarar sem eru að kenna íslenskar bókmenntir eru margir að rannsaka Laxness. Textar eftir hann koma við sögu í mörgum námskeiðum.

Laxnesslestur í framhaldsskóla skiptir ekki höfuðmáli fyrir háskólanám

Ásta hefur ekki fundið fyrir því að nemendur komi verr undirbúnir úr framhaldsskóla en áður með tilliti til lesturs á Nóbelsskáldinu. Nemendur koma úr öllum áttum og ekki allir beint úr framhaldsskólum. Háskólinn fær fólk sem er búið að taka sér pásu eða er að fara í HÍ eftir að hafa gert eitthvað annað. Fólk er á öllum aldri úr ólíkum skólum, þannig að ekki er gert ráð fyrir að nemendur hafi lesið einhverjar tilteknar bækur þegar þeir hefja nám í íslenskudeildinni.

Ástu finnst nemendur í íslensku taka vel í kennslu á Laxness: „Mín reynsla er sú að nemendur okkar þekkja Laxness, hafa lesið mismunandi mikið en eru alltaf tilbúnir að takast á við hann.“

Alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt

Mynd af stúlku að horfa á Menntaskólann við Hamrahlíð
Menntaskólinn við Hamrahlíð er einn af þeim fjórum skólum sem enn kennir Sjálfstætt Fólk í skyldunámi. Mynd: Stúdentafréttir/Sigrún Björk

Ásta nefnir að þó að sumir hafi lesið bók eftir Laxness í framhaldsskóla eða kynnst henni áður á ævinni geti þeir uppgötvað eitthvað nýtt við verkið þegar þeir lesa hana í háskólasamhenginu: „Ólíkt framhaldsskólunum getum við gefið okkur meiri tíma til að staldra við og farið aðeins meira á dýptina.“

Ásta segir að það sé alltaf gaman að lesa Laxness með nemendum í háskólanum. Ef tekinn er tími í að fjalla um verk, kafa ofan í það og lesa það saman þá óhjákvæmilega vakna umræður og áhugi meðal nemenda á hlutum eins og tilfinningalífi manneskjunnar og því hvað við erum flókin.

Laxness opnar á flóknar umræður

Ásta gagnrýnir hversu pólaríseruð samtímaumræðan er orðin, svo svarthvít að jafnvel bókmenntir verða fyrir barðinu á umræðunni. Bækur eru til dæmis dæmdar rasískar, góðar eða vondar, á meðan þetta snýst um að reyna að skilja flóknar persónur og afstöðu og ólíkar skoðanir sem birtast í verkunum.

Að mati Ástu eru verk Halldórs Laxness frábær til þess að opna á slíka umræðu, en tekur fram að henni finnist ekki endilega nauðsynlegt að nemendur þekki Laxness vel þegar þeir koma í deildina.

Kynnumst aldrei verkum Laxness ef hann er tekinn út af námskrá framhaldsskóla

Mynd af bókakápu Sjálfstætt fólk með nútímastafsetningu og orðskýringum.
Sjálfstætt fólk með nútímastafsetningu og orðskýringum kom út árið 2019. Mynd: a4.is

Íslenskuneminn Fjóla segir hins vegar mjög mikilvægt að Laxness sé kenndur í framhaldsskólum, enda fari meginþorri þjóðarinnar ekki í meira bókmenntanám eftir stúdentinn. „Þetta er stærsta skáld þjóðarinnar og það er mikilvægt að halda þessum menningararfi þekktum hjá komandi kynslóðum. Það er mikilvægt að lesa Laxness og það er líka bara ógeðslega skemmtilegt,“ segir Fjóla með glampa í augum.

Fjóla blæs líka á þau rök að Laxness sé svo erfiður út af stafsetningunni. „Það tekur pínu tíma að staulast í gegnum fyrstu bókina og aðlaga sig að stílnum, forminu og orðalaginu og svona en um leið og maður hefur vanist því er þetta eins og annað mál fyrir manni, þetta verður bara svo skemmtilegt.“

Margt fleira í boði en Nóbelsskáldið

Þrátt fyrir að það sé mikilvægt að halda merki eina Nóbelsskálds okkar á lofti er ekkert grundvallaratriði að allir kafi djúpt í verkin hans, að sögn Ástu. Ísland á svo stóra flóru af rithöfundum og skáldverkum sem eru ekkert minna mikilvæg.

„Við þurfum líka að fylgjast með því sem er að gerast núna. Ég er almennt séð á móti því að hampa einum höfundi á kostnað annarra.“ Ásta bætir við að hún hafi oft heyrt sögur af fólki sem hafi þurft að lesa bók eftir Halldór Laxness og aldrei tengt við neitt og svo taka þau sömu bókina upp 15 árum seinna og alveg kolfalla fyrir henni.

Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af

Mynd af bókinni Kristnihald undir jökli eftir Halldór Laxness
Kristnihald undir jökli eftir Halldór Kiljan Laxness. Mynd: commoncrowbooks.com

Blaðamaður Stúdentafrétta biður Fjólu um lokaorð. Hún vitnar í skáldið sjálft:
„Sá sem ekki lifir í skáldskap lifir ekki af hér á jörðinni,“ – Kristnihald undir jökli, Halldór Kiljan Laxness. Í háskólanum, þar sem skáldskapur og fræði mætast, virðist þessi hugsun enn lifa góðu lífi.