Síðustu vikur nóvember og þær fyrstu í desember geta verið krefjandi fyrir nemendur en þá eru iðulega mörg verkefnaskil og lokapróf. Nemendaráðgjöf Háskóla Íslands (NHÍ) er boðin og búin til hjálpar en þangað er hægt að sækja margskonar aðstoð. Þær Jónína Ólafsdóttir Kárdal og Hrafnhildur V. Kjartansdóttir eru náms- og starfsráðgjafar við háskólann og búa báðar tvær yfir margra ára reynslu.

Komið til móts við nemendur
„Lífið getur verið flókið og margir þurfa bara tímabundin úrræði,“ segir Jónína en í dag eru allt að 1800 nemendur að hverju sinni með samning um úrræði í Háskóla Íslands. Nemendaráðgjöfin þarf að vera ansi hörð á frest umsókna vegna úrræða í prófum en hann er 1. október að hausti og 1. mars að vori. Það er þó brugðist við og gerðar undantekningar ef um óvænt áföll eða annað svipað er að ræða. Hrafnhildur leggur áherslu á að þau reyni sitt besta til að koma til móts við nemendur.
„Við reynum að koma þessum dagsetningum á framfæri en auðvitað gerist það alveg að þetta fari framhjá fólki. Það er samt ekki þannig að maður sé alveg búin að missa af heldur er ennþá hægt að koma í viðtal. Ef frestur er liðinn til að fá úrræði í næstu prófatörn þá gerum við samninga sem gilda fyrir sjúkra- og endurkomupróf.“
Fólk er að greinast fyrr
Margir hafa eflaust orðið varir við umræðu um að skyndilega séu „allir“ að greinast með ofvirkni, athyglisbrest eða annað slíkt. Hrafnhildur segir að þetta sé líklega bein afleiðing þess að í dag sé greiðara aðgengi að því að fá greiningar en áður. Jónína og Hrafnhildur virðast sammála um að þetta leiði til þess að fólk greinist fyrr á ævinni. Þannig eru margir sem hefja nám í Háskólanum og hafa þegar áttað sig á því hvaða úrræði henta sér.
Mörg mismunandi úrræði í boði

Hrafnhildur segir að langalgengasta úrræðið sé lengri próftími en það er líka boðið upp á til dæmis talgervil sem les upp fyrir fólk með lestrarörðugleika. „Úrræðin eru til þess að jafna stöðu nemenda, þau eru ekki hugsuð sem eitthvað extra eða sér,“ segir Hrafnhildur. „Fólk er hér í háskólanum burtséð frá námsörðugleikunum, þau hafa náð ákveðinni færni til að þess auðvitað að skila sinni þekkingu til náms,“ bætir Jónína við.
Stöðugt verið að breyta og bæta
Það eru þrjátíu ár síðan Háskóli Íslands setti sér stefnu um úrræði í námi en þá voru bara tveir háskólar hér á landi, HÍ og Háskólinn á Akureyri. Síðan þá hafa orðið miklar breytingar á mögulegum úrræðum meðal annars vegna nýkominnar tækni svo sem Inspera. „Stefnan í sjálfu sér hefur kannski ekki breyst mikið. Það er annars vegar stefna háskólans og jafnréttisáætlun sem við byggjum mikið á. En síðan eru verklagsreglur um sértæk úrræði í námi og þær reglur eru í endurskoðun.“ Hrafnhildur segir margar ástæður fyrir breytingunum og að til dæmis þurfi að fylgjast með hvaða orð sé verið að nota í samfélaginu og taka tillit til þess.
„Orðið lesblinda virðist vera á útleið, núna er frekar talað um dyslexíu. Þetta eru svona hlutir sem eru í stöðugri endurskoðun.“

Ýmislegt á döfinni
Það er alls kyns þjónusta sem háskólinn stendur að sem gerir fólk sem þaðan útskrifast starfshæfara. „Það þurfa allir að vinna með einhverjum hætti og náms- og starfsráðgjafi getur aðstoðað þig við að átta þig á hvernig þú kemst út á vinnumarkaðinn með alla þína styrkleika og færni.“ Á döfinni eru svo Framadagar þar sem öllum háskólanemum er boðið að kynna sér fjölbreytta möguleika á framtíðarstörfum eða verkefnavinnu. Þeir fara fram fimmtudaginn 22. janúar í Háskólanum í Reykjavík. Einnig eru Atvinnudagar HÍ haldnir dagana 16. – 20. febrúar en samkvæmt færslu á heimasíðu háskólans síðan í fyrravetur er markmið daganna að „veita fræðslu um starfsþróun á meðan háskólanámi stendur og hvað þurfi að hafa í huga við undirbúning þátttöku á vinnumarkaði.“
Hvetja nemendur til að kynna sér þjónustuna
Nemendaráðgjöfin tekur ábendingum um nýjar tegundir úrræða opnum örmum. Eftir að Covid-faraldurinn reið yfir landið hefur til dæmis verið aukin eftirspurn eftir því að taka viðtöl í gegnum fjarfundarbúnað. Í dag er hægt að bóka ráðgjafaviðtal á staðnum, í síma eða þá á Teams. Jónína og Hrafnhildur hvetja alla nemendur háskólans til að kynna sér þjónustuna og að hika ekki við að bóka viðtal. Ef erindið á ekki við náms- og starfsráðgjöf geta ráðgjafarnir engu að síður aðstoðað nemendur við næstu skref.








