Heim Fréttir Lítil þekking Trump á stjórnmálum ógnar lýðræðinu ef hann kemst til valda

Lítil þekking Trump á stjórnmálum ógnar lýðræðinu ef hann kemst til valda

Harris eða Trump: Eru Vesturlönd á krossgötum?
Harris eða Trump: Eru Vesturlönd á krossgötum?

„Við erum ekki á krossgötum heldur erum við á bjargbrún“, sagði Erlingur Erlingsson, fyrrum staðgengill sendiherra í Washington, D.C. og hernaðarsagnfræðingur, þegar hann var spurður hvort Vesturlöndin stæðu á krossgötum vegna komandi forsetakosninga í Bandaríkjunum. Þetta sagði hann á pallborði sem haldið var í HÍ þann 29. október um stöðu Bandaríkjakosninga. Sumir gera ráð fyrir að Trump muni beita forsetavaldinu alveg eins og hann gerði í fyrra skiptið. Sérfræðingar segja að slíkar væntingar eigi engan veginn rétt á sér. Evrópa og bandalög eins og NATÓ eru í viðbragðsstöðu. „Við verðum að vera viðbúin að Trump kemst til valda“, sagði Erlingur. Hann telur að lýðræði eins og við þekkjum það í dag sé ógnað ef Trump ber sigur af hólmi.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, fyrrum dómsmálaráðherra og síðar meir öldungadeildarþingmaður, keppir um forsetastólinn fyrir hönd Demókrata við Donald Trump, kaupsýslumann og fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem býður sig fram fyrir hönd Repúblikana.

Frambjóðendurnir tveir gætu ekki verið jafnari eins og staðan er núna og því æsispennandi kosningar í vændum. Lið sérfræðinga rýndi í baráttuna, skoðanakannanir, framtíðarsýn frambjóðenda og fjölmiðlaumfjallanir. Í pallborðinu var meðal annars rætt um hvað það mögulega þýddi fyrir Bandaríkin ef hvor frambjóðandinn kæmist til valda en hvað það þýddi fyrir Vesturlöndin.

Auk Erlings voru þátttakendur í pallborðinu Birta Björnsdóttir, yfirmaður erlendra frétta á RÚV, Hafsteinn B. Einarsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.

Pallborð
Pallborð í Háskóla Íslands. (Á mynd frá vinstri: Birta Björnsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir, Hafsteinn B. Einarsson og Erlingur Erlingsson).

Niðurstöðurnar munu snerta allan heiminn

Á næstu dögum verður ljóst hver hlýtur embættið. Kosningarnar fara fram á morgun en oft geta talningar tekið sinn tíma og þess vegna ekki vitað hvenær niðurstöðurnar koma í ljós.

Niðurstöðurnar hafa ekki einungis áhrif á Bandaríkin sjálf heldur alla heimsbyggðina. Bandaríkin eru risaveldi og mætti segja að forseti Bandaríkjanna sé einn valdamesti maður í heiminum. Því fylgist fólk alls staðar að úr heiminum æsispennt með. Seinustu dagar að kosningum eru lang mikilvægastir og því gæti allt skyndilega snúist við.

Trump ógnar lýðræðinu

Erlingur segir mikið hanga á spýtunni fyrir okkur á Vesturlöndum. Hann segir mest aðkallandi ógnina vera tilraunir Rússa til að taka yfir Úkraínu, það grafi undan örygginu sem við höfum haft svo lengi. Silja vill meina að það kjarnist í kosningunum hvert heimurinn er að stefna. „Það eru mörg erfið mál sem við þurfum sem samfélög að stíga fastar til jarðar“, bætti hún við og segir mikið í húfi.

Erlingur hefur áhyggjur af litlum skilningi Trumps á forsetaembættinu og hvernig stjórnmál virki yfirhöfuð. Vitað sé að Trump hafi alla tíð starfað sem „business“-maður Hann hafi enga reynslu af stjórnmálum nema í embætti sínu árin 2016 til 2021. Erlingur bætir við að í forsetatíð Trump hafi oft þurft að stíga á bremsuna vegna lítillar þekkingar Trumps á hvernig stjórnmál ganga fyrir sig.

Fólk á það til að halda að Trump muni beita valdinu eins og hann gerði áður, í dag lifum við á allt öðrum og stríðshrjáðari tímum. Silja og Erlingur lögðu áherslu á að Trump verði allt öðruvísi forseti ef hann kemst aftur til valda. „Fólk hugsar bara hvernig Trump var síðast, Trump núna verður allt öðruvísi“, sagði Erlingur.

Silja Bára segir mikilvægt fyrir hin Vesturlöndin að starfa með Bandaríkjunum. Evrópa hefur byrjað að undirbúa varnar- og öryggiskerfi sín ef svo færi að Trump sigri. Hér á Íslandi er undirbúningur einnig hafinn, „Ísland er að þreifa á þeim sem Trump er líklegur til að setja í herstjórn“, segir Erlingur.

Erlingur segir Trump líta á NATÓ eins og „mafíustjóri“, hann sé virkilega líklegur til að taka Bandaríkin úr NATÓ. Þess vegna telur hann sigur Trump ógna lýðræði eins og við á Vesturlöndum þekkjum það og það sé mikið samtímafyrirbæri sem við verðum að vernda.

„Það er eitt sem skiptir Donald Trump máli og það er Donald Trump“

Erlingur tók það fram að Trump vilji koma eins miklu í verk og hann getur ef hann kemst til valda. Sá hugsunarháttur gæti verið skaðlegur og hættulegur.

Trump vilji breyta hlutum sem hann skilji ekki nógu vel né afleiðingarnar sem gætu fylgt í kjölfarið. Það megi t.d. nefna tollastefnu Trump og skattalækkanir. „Ástæðan fyrir að Trump er hrifinn af tollum er vegna þess að hann getur haft svo mikil áhrif á þá, hann skilur ekki tolla vel“, sagði Erlingur.

Erlingur talar um að Trump gæti rústað efnahagslegum stöðugleika í Bandaríkjunum með miklum tollahækkunum og skattalækkunum fyrir þá efnameiri, eins og hann hefur boðað.

„Það er eitt sem skiptir Donald Trump máli og það er Donald Trump“, sagði Erlingur.

Verðum að tala meira um það sem skiptir raunverulega máli

Hafsteinn tekur það fram að fólk muni vel hver sigraði árið 2020 en það muni ekkert endilega hver tapaði. Það gæti útskýrt hvers vegna Trump nýtur enn mikilla vinsælda meðal kjósenda sinna, „Trump hefur mjög sterk tök á þingflokknum“, sagði Hafsteinn.

Erlingur furðar sig á hvernig stuðningsfólk Trump lítur á hann sem saklausan einstakling. Trump hafi nýlega verið fundinn sekur í 34 ákæruliðum um skjalafals, auk þess sem hann hafi þó nokkuð fengið á sig ákærur fyrir kynferðisbrot gegn fjölda kvenna.

Birta segir Trump vera mjög óvenjulegan stjórnmálamann, sem aðrir sérfræðingarnir tóku undir. Það hafi t.d. sýnt sig í oft dónalegum og sverum yfirlýsingum hans.

Stuðningsmenn hans taki oft mikið mark á yfirlýsingum Trump sem hafa oftar en ekki verið hraktar af yfirvöldum og sérfræðingum. Margt af því sem hann vill halda fram stangast á við staðreyndir. „Hann segir alls konar hluti sem eiga ekki við rök að styðjast raunveruleikanum,“ sagði Birta.

Yfirlýsingar Trump rata oftar en ekki í stóru fjölmiðlana. þessi hegðun gæti verið ákveðin taktík til að vera með ákveðið dagskrárvald í miðlum. Birta segir hlutverk fjölmiðla að sjá í gegnum þessa hegðun hans, það sé ákveðinn lærdómur að stökkva ekki alltaf til. Hún heldur og vonar að fjölmiðlar séu að læra af þessu.

Sérfræðingarnir segja að of miklum tíma sé varið í að upplýsa fólk um fréttir sem skipta ekki máli í kosningunum. Erlingur segir mikilvægt að elta ekki skottið á sér í sífellu og fara að tala um stefnumál frambjóðendanna.

Harris stefnir lengra til hægri en Biden

Silja Bára talar um að það sé óljósara hvernig Harris muni beita forsetavaldinu en Trump. Hún hafi ekki haft eins langan tíma og Trump til að kynna og móta ímynd sína og stefnu. Hún muni halda áfram í efnahagsmálunum en það sé óljóst hvernig það muni ganga. Hennar prófíll hefur verið mikill í kvenréttindamálum frekar en á körlum.

Silja og Hafsteinn taka undir það að Harris verði framhald af Biden en aðeins meira til hægri, þá aðallega í innflytjendamálum, að mati Silju talar Harris gegn innflytjendum. Hafsteinn talaði um að þetta sé taktísk og góð ákvörðun fyrir Harris til að höfða meira til Repúblikana. Erlingur telur að Harris verði rökrétt framhald af Biden í utanríkismálum en komi jafnvel mun sterkari inn en hann.

Sigur Harris markar tímamót í kvenréttindabaráttunni sem og í mannréttindabaráttu svartra

Ef Kamala ber sigur úr býtum verður hún fyrsti kvenkyns forseti Bandaríkjanna og þar að auki fyrsta svarta konan til að sinna embættinu. Það myndi vissulega rata í sögubækurnar.

Margir velta því fyrir sér hvort Bandaríkjamenn séu tilbúnir að kjósa svarta konu í forsetaembættið. Silja Bára segir að þeir séu tilbúnir að kjósa konu. Í forsetakosningunum 2016 hafði Clinton betur meðal þjóðarinnar sem sannar það. Hins vegar sé ekki víst hvort þeir séu tilbúnir að kjósa sér svarta konu sem þjóðarleiðtoga. Það gæti komið í ljós á morgun.