Heim Fréttir Lokaður stúdentaráðsfundur um 8 milljóna króna sáttagreiðslu

Lokaður stúdentaráðsfundur um 8 milljóna króna sáttagreiðslu

Stúdentaráð Háskóla Íslands greiddi átta milljóna króna sáttagreiðslu vegna riftunar á samning við viðburðarhaldsfyrirtækið Paxal fyrir Októberfest. Lokaður stúdentaráðsfundur var haldinn um málið 6. ágúst síðastliðinn. Starfsmenn skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) segja að í samningnum hafi verið valdaójafnvægi og því vildu þau breyta rekstrarforminu.

Rökstuðningur Arent Orra J. Claessen, forseta SHÍ fyrir lokun fundarins, var „að sú ákvörðun sem Stúdentaráð tekur á fundi þessum gæti leitt til dómsmáls“ og kom það fram í fundargerð. Hann vildi því ekki að fundargögn væru opinber.

Paxal hefur séð um uppsetningu hátíðarinnar undanfarin ár Stúdentafréttir/Alma

Paxal hefur séð um skipulag á Októberfest undanfarin tíu ár. Samningur um áframhaldandi samstarf til næstu fimm ára var undirritaður af fyrrum forseta SHÍ, Rakel Önnu Boulter, í mars á þessu ári. Á lokaða stúdentaráðsfundinum í ágúst var tillaga Vöku, um að rifta fimm mánaða gamla samningnum, samþykkt.

„Það lá ekki fyrir að þessi sáttagreiðsla yrði samþykkt. Við göngum ekki út frá því heldur var það kynnt fyrir Stúdentaráði svo að Stúdentaráð gæti tekið ákvörðun“ segir Júlíus Viggó Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi SHÍ í samtali við fréttastofu. Þess vegna hafi verið nauðsynlegt að loka fundinum.

Tillagan samþykkt

Allir stúdentaráðsliðar Vöku kusu með riftun á samningnnum en allir Röskvuliðar sátu hjá. Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum Vökuliða. Vaka náði meirihluta í Stúdentaráði í síðustu kosningum og er það í fyrsta sinn síðan skólaárið 2016 til 2017.  

„Við borguðum Paxal og Vini Hallarinnar átta milljónir í sitthvorum fjögurra milljón króna greiðslum“ segir Júlíus Viggó. Sú greiðsla væri fyrir riftunina á samningnum ásamt greiðslum fyrir undirbúningsvinnu sem var þá þegar hafin fyrir hátíðina.  „Ég sé engan veginn eftir henni [sáttagreiðslunni],“ bætir hann við.

Markmiðið með riftuninni var að breyta rekstrarforminu á Októberfest og fá ákvörðunarvaldið til baka. „Valdajafnvægið og ákvörðunartaka í samningnum er ekki eins og samningar eru almennt“ segir Daníel Hjörvar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SHÍ. Stúdentaráðið hafi verið efst í skipuritinu í skipulagi hátíðarinnar í ár ólíkt því sem samningurinn hafði sagt til um. Skrifstofa SHÍ hafi sjálf ráðið verktaka „sem vinna fyrir okkur við afmarkaðan hluta af skipulagningu og lúta þá algjörlega okkar boðvaldi og ákvarðanatöku“ bætir Daníel Hjörvar við.

Græða ekki á stúdentum

Daníel Hjörvar segir að allt bendi til þess að hagnaðurinn af Októberfest borgi fyrir sáttagreiðsluna.  „Stúdentaráð mun ekki taka helmingi meira heldur margfalt meira út úr þessari hátíð heldur en það hefur undanfarin ár,“ segir Júlíus Viggó. Þeir væru ekki komnir með lokatölur um hve mikill hagnaðurinn væri en Júlíus Viggó segir að sú tala sé svo há að hann munii flagga henni út um allt þegar hún berist.  

Samningurinn við Paxal setti ákveðið hámark á hversu mikið miðarnir á hátíðina mættu kosta. Miðaverðið hækkaði í ár sem Daníel Hjörvar og Júlíus Viggó telja eðlilega hækkun miðað við verðbólgu. 

Daníel Hjörvar segir að hækkunin á miðaverðinu skilaði sér samt sem áður beint til Stúdentaráðsins sem skilaði sér „oftast, eða nánanst allt, í einhvers konar hagsmunabaráttu.“

Alltaf einhver áhætta

Daníel Hjörvar og Júlíus Viggó viðurkenna að það vakna alltaf upp áhyggjur á tapi þegar farið er út í svona ákvarðanir. Daníel Hjörvar segir að „allar upplýsingar sem ég hafði á þessum tíma renndu stoðum undir það að þetta væri rétt ákvörðun en maður er mannlegur að taka stórar ákvarðanir og maður hefur alltaf smá efa í hjartanu.“

„Það er alltaf hættulegt að taka ákvarðanir og breyta frá því sem hefur áður verið“ segir Júlíus Viggó.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:40 16. september 2024. Upphaflega stóð að tillaga Vöku hefði verið naumlega samþykkt en Röskvuliðar sátu hjá í stað þess að greiða atkvæði gegn riftun á samningnum. Beðist er velvirðingar á orðalagi.