Heim Fréttir Lundavegur eða Laugavegur

Lundavegur eða Laugavegur

Á göngugötu Laugavegs, sem liggur frá gatnamótunum við Frakkastíg niður að Bankastræti, má finna fjöldann allan af búðum ætluðum ferðamönnum, svokölluðum Lundabúðum. Samkvæmt talningu fréttamanna Stúdentafrétta mátti finna 11 búðir þar sem ferðamenn geta keypt ýmsan varning til að minnast ferðalags síns hér á landi.

Sem dæmi um slíkar búðir má nefna Saga Store, Icemart, Shop Icelandic, Nordic Store og SAGA. Þar má helst finna lundabangsa, varning merktan íslenska fánanum og hluti tengda víkingum. Mikið er um boli, peysur og húfur með lunda eða íslenska fánanum.

Þá má einnig finna lopapeysur, segla með norðurljósum, styttur, bolla, íslenskt vatn í flöskum og matvæli en þar má nefna salt sem inniheldur íslenskar jurtir.

Lundinn vinsælastur

Sarah O’Neill, starfsmaður verslunarinnar Nordic Store, segir að það sé alltaf mikið að gera í búðinni og þá sérstaklega á sumrin. 

O’Neill segir að meðal vinsælustu varanna séu þær vörur sem eru með lunda á. „Allt sem er með lunda á er frekar fljótt að fara.” Þá segir hún að lyklakippur og seglar séu einnig vinsælar vörur, þar sem þær séu á sanngjörnu verði miðað við aðrar vörur. Á sumrin eru peysur og bolir mjög vinsæl söluvara og þarf sífellt að fylla á stuttermaboli.

Fréttamenn gerðu lauslegan verðsamanburð á nokkrum samsvarandi vörum í mismunandi búðum.

Meðal annars mátti finna íslenskt jurtasalt á verðbilinu 2990 krónur til 4199 króna og lundabangsa frá 1690 króna til 3699 króna.

Ferðamaður furðar sig á fjölda ferðamannabúða

Mikið er af ferðafólki á Laugaveginum og furðaði Molly, ferðamaður frá Bandaríkjunum, sig á því hversu mikið af búðum ætluðum ferðamönnum væru þar. Molly sagði að hún væri ekki að leitast eftir  slíkum búðum og vildi heldur upplifa menningu landsins. Molly bætti þá við að hún elskar Regnbogaveginn og segir það vera mjög fallegt hvað miðbærinn er litríkur.