Stóra malarbílastæðið fyrir framan Háskóla Íslands mun að öllum líkindum hverfa og verða að grænu svæði í framtíðinni samkvæmt samþykkt háskólaráðs.
Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála, segir malarplanið búið að vera óbreytt í langan tíma. „Þetta er nú búið að vera í fjölda ára, það á sér lengri sögu en ég hérna í háskólanum“.
Malarplanið er á landi borgarinnar og ræður háskólinn því ekki alfarið yfir því. Kristinn segir að það verði lítið um bílastæði á háskólasvæðinu í framtíðinni. „Borgin hefur verið að ýta á okkur að loka þessu bílaplani en við höfum svona þráast við“.
Samkvæmt hugmynd að nýju skipulagi fyrir háskólasvæðið verði malarstæðinu lokað, ásamt fleiri stæðum. „Það verður ekki mikið um bílastæði hérna í framtíðinni“. Það eru þó einhver ár í það að sögn Kristins.
Þá byggir framtíðarsýn háskólans og borgarinnar á fækkun bíla, minni bílaumferð og betri almenningssamgöngum. Kristinn nefnir þó að „það er ekki þar með sagt að það verði allt eins og búið er að skipuleggja“.
Tjarnir og gróður í stað malarbílastæðisins
Hugmyndin er sú að í staðinn fyrir malarbílastæðið verði tjarnir og gróður eða það sem er kallað grænt svæði. Þá yrði Sæmundargötu líklegast lokað og verður engin gata beint inn á háskólasvæðið.
Að sögn Kristins er framtíðin sú að bílastæði verði ekki gjaldfrjáls. „Það er verið að setja gjald á bílastæði allt í kringum okkur“. Þegar horft er til framtíðar verða færri bílastæði og færri einkabílar. „Það verður erfiðara að koma á bílnum sínum og leggja honum, og það mun kosta“ segir Kristinn.
Framtíðarsýn háskólans
Kristinn segir þessa þróun vera í takt við það sem er að gerast í löndum í kringum okkur. En framtíðarsýnin byggir á áformum um betri almenningssamgöngukerfi. „Það eru mjög metnaðarfull áform um lagfæringu á almenningssamgöngum fyrir stúdenta“. Samkvæmt Kristni hefur háskólinn beðið með gjaldskyldu bílastæðanna því háskólinn hefur viljað sjá betri almenningssamgöngur raungerast.
Framtíðarsýn háskólans, sem búið er að samþykkja í háskólaráði, gerir þó ráð fyrir því að þetta bílastæði verði ekki í framtíðinni að sögn Kristins.