Heim Fréttir Nám 140% vinna miðað við ECTS-einingakerfið

Nám 140% vinna miðað við ECTS-einingakerfið

Námsálag nemenda getur verið gríðarlegt. Gera má ráð fyrir að á bak við hverja einingu liggi allt að 30 vinnustundir sem gera 56,25 klukkustundir á viku miðað við 16 vikna skólaár.

Inn á vef Háskóla Íslands stendur: „Almennt er miðað við að nám í eitt háskólaár sé 1.500 til 1.800 vinnustundir.  Það gera 25 til 30 vinnustundir fyrir hverja ECTS-einingu.“

Því má gera ráð fyrir að á einni önn séu vinnustundir um 900 klst. miðað við 30 eininga nám. Sé því deilt niður á 16 vikna skólaár gerir það 56,25 klukkustundir á viku. Sé nemendum gefið helgarfrí og klukkustundunum deilt á 5 daga skólaviku gera það 11,25 klst á dag eða 8,04 klst. á dag miðað við 7 daga.

Útreikningar á vinnustundum

Erfitt að finna pláss fyrir 11,25 klst. lærdóm í daglegu lífi

Oft er talað um að nám sé full vinna. Hin hefðbundna vinna nemur þó yfirleitt um 8 klst. 5 daga vikunnar og fríi um helgar. Því er einkennilegt að vinnustundir nemenda séu 11,25 klst. á dag vilji þeir eiga helgarfrí.

Athafnir daglegs lífs – grófleg áætlun

Hver sólahringur hefur að geyma 24 klukkustundir og má gera ráð fyrir að um 8 tímar fari í svefn, 1-2 tímar í að borða, 1 klst. í hreyfingu ásamt ótal öðrum þáttum sem fylgja daglegu lífi. Eins og sjá má í töflunni gengur dæmið ekki upp þegar nánast hálfur sólarhringur á að fara í lærdóm.

Oft er talað um að ekki eigi að vinna með skóla og þrátt fyrir að vinna sé tekin út úr jöfnunni gengur dæmið ekki upp. Það virðist vera ómögulegt að geta stundað nám í 11,25 klukkustundir á dag án þess að fórna grunnþörfum eins og svefni. Má því velta fyrir sér hvort einingakerfið í háskólanum feli í sér of miklar kröfur og hvort eðlilegt sé að nemendur eigi að vera í 140,6 % vinnu.