Heim Fréttir Ný námsleið í hjúkrunarfræði brautskráir sína fyrstu nemendur

Ný námsleið í hjúkrunarfræði brautskráir sína fyrstu nemendur

©Kristinn Ingvarsson

Fyrstu 14 nemendurnir brautskráðust af nýrri námsleið í hjúkrunarfræði í nýafstaðinni brautskráningu frá Háskóla Íslands. Námsleiðin er tveggja ára nám ætlað nemendum sem lokið hafa öðru námi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands eða fengið nám sitt úr öðrum deildum metið.

Breyttir tímar kalla á breytt fyrirkomulag

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að námsleiðin væri merki um breytta tíma og nýjar áherslur á endurmenntun og viðbótarnám.

„Segja má að það fyrirkomulag sé á undanhaldi að fólk mennti sig snemma á ævinni til tiltekins starfs og gegni því svo starfsævina á enda. Þess í stað færist það sífellt í vöxt að fólk sæki sér viðbótarmenntun síðar á lífsleiðinni, ýmist í sinni grein eða á öðru sviði og
skipti að því búnu um starfsvettvang,“ sagði Jón Atli í ávarpi sínu sem hann hélt við tilefnið á athöfn Hjúkrunar- og ljósmóðurdeildar.

Fyrstu nemendur námsleiðarinnar hófu nám árið 2020. Námsleiðinni er ekki aðeins ætlað að fjölga háskólamenntuðum hjúkrunarfræðingum í sífellt vaxandi heilbrigðiskerfi, heldur einnig að auka möguleika á endurmenntun fyrir fólk sem er nú þegar hluti af atvinnulífinu. Einnig er henni ætlað að skapa ný tækifæri fyrir fólk sem vill hasla sér völl á nýjum starfsvettvangi.

Aukið álag á heilbrigðiskerfið kallar á aðgerðir

Í október sendu heilbrigðisráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra frá sér minnisblað um auknar aðgerðir í tengslum viðheilbrigðisvísindi. Kom þar fram að mönnunarvanda á heilbrigðisstofnunum landsins megi að stóru leyti skrifa á skort á menntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Því séu auknir menntunarmöguleikar heilbrigðisstarfsfólks lykilatriði svo hægt sé að bregðast við þeim vanda.

Í september stofnaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tveggja milljarða sjóð sem ætlað er að efla samstarf á milli allra íslensku háskólanna. Meira samstarf á milli íslenskra háskóla sé forsenda þess að gæði háskólanáms á Íslandi aukist. Sé sjóðurinn ein leið til að auka framfarir og nýsköpun í námi á háskólastigi.

Skólar sem bjóða upp á nám í heilbrigðisvísindum hafa verið hvattir til þess að sækja um stuðning til sjóðsins, sérstaklega þegar kemur að uppsetningu á sameiginlegri aðstöðu sem skólar geta nýtt sér við kennslu og æfingar nemenda innan heilbrigðisvísinda.