Allir sem ganga nú um háskólasvæðið finna líklegast fyrir spennu í loftinu. Hún er svo sannarlega ekki að ástæðulausu því eins og flestum er kunnugt nálgast prófin óðfluga og ákvað blaðamaður að fara á stúfana og taka púlsinn á stúdentum fyrir átökin sem bíða.
Ætlar að klára með stæl
Freyja Lárusdóttir er nemandi á fyrsta ári í stjórnmálafræði. Hún segir að prófatíðin leggist bara ansi vel í sig, en að sjálfsögðu sé smá stress sem henni fylgir. Hún kveðst vera að fara í fjögur próf sem öll vegi 40% af lokaeinkunn. Það er regla stjórnmálafræðideildar að ná þurfi lokaprófum til að ná áföngum þannig að vægast sagt þarf að halda vel á spilunum í komandi tíð.

Freyja segist vera með ákveðna taktík. Hún hafi glósað vel í tölvu yfir önnina og ætli nú að fara í að handskrifa glósurnar til að festa rækilega í minninu. „Ég ætla bara að læra vel fyrir prófin og standa mig vel“.
Freyja játar þó að það sé ekki bara stress og kvíði fram undan og að nú þegar sé búið að skipuleggja próflokadjamm hjá nemendafélaginu Politica og hún láti sig sko ekki vanta þar. Einnig segist hún vera orðin rosa spennt fyrir jólunum og geti varla beðið. Að lokum spurði blaðamaður hvort Freyja ætti einhverjar spennandi og skemmtilegar jólahefðir. „Ég horfi alltaf kl. þrjú á aðfangadegi á Andrés Önd. Það er sko sænsk jólahefð.”
Nældi sér í „Quizlet á sterum”
Aron Snær Eggertsson er á öðru ári í hagfræði. Aron segir að prófatíðin leggist bara ansi vel í sig þrátt fyrir mjög þétta dagskrá. Allt í allt fer hann í fimm lokapróf á tímabilinu 24. nóvember til 5. desember og fagnar því löngu jólafríi eins og hann segir sjálfur.

Aroni þykir það best í prófundirbúningi að finna sér stofu og leysa dæmi og skrifa skilgreiningar upp á töflu. Honum þykir ekki verra ef hann er með góðan félaga með sér og nefnir þar sérstaklega Jóhannes Óla vin sinn. En fyrir fræðilegri greinar segist Aron nota forritið Quizlet en þó ætli hann að prófa eitthvað nýtt í ár og nýta sér forritið Enki sem hann lýsir sem „Quizlet á sterum”.
Aron segist ekki vera kominn algjörlega í jólagírinn en sé byrjaður að hlusta á jólalög til að kveikja vonandi á honum. En hann vill samt ekki fara í of mikinn jólagír fyrr en eftir prófin, enda segist hann ætla að halda upp á próflokin með því að skella sér í „jólarölt á Laugarveginum og fá mér kakó“.
Aron er frá Akureyri og hlakkar líka mikið til að komast heim, hann kemst þó ekki fyrr en 13. desember, en hann segir það ágætt. Þá geti hann klárað allar jólagjafir á góðum tíma. Þegar ég spurði Aron út í furðulegar og skemmtilegar hefðir um jólin segir Aron að familían fari í jólabingó og mælir með að allir geri slíkt hið sama.
Jólin haldin hátíðleg með Minecraft
Breki Hólm Hrafnsson er á öðru ári í vélaverkfræði og hann segist vera á leið í rólegri prófatíð en vanalega. Einungis tvö próf bíði hans. Námið hefur þó ekki verið tómur dans á rósum, því ýmis lokaverkefni hafa komið í staðinn. Þrátt fyrir fá próf er seinasta prófið 8. desember því engir afslættir eða auka dagar gefnir í þessari deild.

Breki segist taka bara eitt próf í einu í lærdóminum, fari vel yfir það efni og byrji svo undirbúning fyrir það næsta að því loknu. Hann fer vel yfir hvern kafla fyrir sig og æfir sig á alls konar prófum og verkefnum sem komu fyrr á önninni.
Breki segist vera orðinn ansi spenntur fyrir próflokunum og jólunum og að sjálfsögðu á að skella sér í gott próflokadjamm hjá nemendafélaginu Vélinni þegar allt þetta stress er yfirstaðið. Hann segist ætla að hafa jólin kósí og þægileg og hanga bara með fjölskyldu og vinum.
Þegar ég spurðist fyrir um skrýtnar eða skemmtilegar hefðir sagði hann „alltaf þegar seinasti vinurinn er búinn í prófunum byrjum við strákarnir Minecraft jólaserver”.
Allt handskrifað, ekkert rugl
Seinust en alls ekki síst er hún Þórsteina Þöll Árnadóttir sem er sjúkraþjálfunarnemi á fyrsta ári. Sjúkraþjálfunarfræðin er þannig uppsett að henni er eiginlega skipt í tvennt og því eru nemarnir búnir með 3 lokapróf nú þegar sem voru í september. Í raun er bara einn áfangi sem er yfir alla önnina. Hún segir að þessu kerfi fylgi að sjálfsögðu kostir og gallar en það minnki að vísu álagið sem er akkúrat núna þar sem það eru færri próf. En þrátt fyrir það er eins og hjá flestum samt ákveðið stress sem fylgir komandi vikum.

Þórsteinu þykir best að glósa niður efnið og fara vel yfir glósurnar sínar sem hún skrifar alltaf sjálf niður á blað eða örsjaldan ipad en þá notar hún samt Apple-penna til þess: „Ég vil handskrifa glósur, ég er ekkert í þessu tölvudæmi“. Hún viðurkennir að vera svolítið óskipulögð og að það komi fyrir að henni finnist gott að læra í góðum hóp.
Þórsteina ætlar að fara út fyrir landsteinanna tveimur dögum eftir að hún klárar prófin og er ferðinni heitið til Bandaríkjanna. Þegar spjallið dróst að jólunum segir Þórsteina að það sé erfitt að verða spennt fyrir jólunum á meðan hún er enn í skólanum en að hún sé aðallega spennt fyrir því að klára prófin. Hún og hennar nánustu gera svo alltaf saman brjóstsykur fyrir jól og fara og gefa stórfjölskyldunni með sér.
Já prófatíðin er svo sannarlega komin í gang og eins og heyra má hjá flestum fylgir henni mikið stress og spenna allt í bland. Við minnum á að hugsa vel um sig í komandi átökum og leyfa sér jafnvel að hlusta á eitt og eitt jólalag








