„Ég sé engar forsendur fyrir því að háskólinn þurfi að greiða eitthvað til baka,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í samtali við RÚV, en Stúdentaráð segir skrásetningargjöld við Háskóla Íslands ólögmæt og hefur farið fram á að háskólinn endurgreiði stúdentum skrásetningargjöldin aftur í tímann. Ennfremur segir Jón Atli að krafan hafi komið sér á óvart því skrásetningargjaldið hafi verið í gildi í mörg ár og var það rökstutt á sínum tíma. Síðan þá hafi verið fylgst með kostnaðarliðum sem eru að baki skrásetningargjaldinu og þjónusta við nemendur hefur aukist.
Stúdentaráð segir að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólans hafi úrskurðað að grundvöllur skrásetningargjaldsins hafi verið ófullnægjandi og þar með verið brotið gegn lögmætisreglunni. Vegna þessa boðaði Stúdentaráðs til blaðamannafundar 27. október síðastliðinn þar sem greint var frá því að Stúdentaráð færi fram á að háskólinn endurgreiddi stúdentum skrásetningargjöldin og sagði Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi LHÍ, að gengið væri út frá því að háskólinn muni endurgreiða skrásetningargjöldin. Þá nefndi Rakel Anna Boulter, formaður Stúdentaráðs, að þó að 75.000 krónur á ári sé kannski ekki há upphæð í stóra samhenginu, að þá geti hún breytt miklu fyrir stúdenta, en samkvæmt nýlegri könnun stúdentaráðs meta 31% stúdenta fjárhagslega erfiðleika sína alvarlega eða mjög alvarlega.
Rektor er aftur á móti ósammála kröfum stúdentaráðs en útilokar ekki að endurgreiðslur fari af stað. Háskólaráð þurfi að fjalla aftur um málið og það sé í undirbúningi. Stúdentaráð hefur boðað til fundar 14. nóvember næstkomandi, en þar verður meðal annars farið yfir málið.