Gjaldtöku bílastæða við Háskóla Íslands hefur verið frestað að nýju. Rektor Háskóla Íslands segir að áætlað sé að innleiða mánaðargjald upp á 1.500 krónur fyrir nemendur og starfsfólk skólans næsta sumar. Háskólinn hefur þegar tvisvar frestað fyrirhuguðum gjaldtökum.

Önnur frestun gjaldtöku

HÍ bauð út þjónustu við rekstur og eftirlit með bílastæðum á háskólasvæðinu síðastliðið, þar sem þrjú tilboð bárust líkt og Stúdentafréttir greindu frá. Tvö þeirra voru undir áætlun en tilboð þeirra voru metin ógild, þar sem aðilar stóðust ekki kröfur útboðsins. Niðurstaðan varð sú að bjóða þyrfti þjónustuna út á ný. Er þetta í annað sinn sem gjaldtöku hefur verið frestað. Upphaflega átti gjaldtaka við Háskóla Íslands að hefjast síðastliðið haust, gekk það ekki eftir og nú átti hún að hefjast eftir áramót, ljóst er að það tekst ekki.

Áætlað mánaðargjald um 1.500 krónur

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir í samtali við Stúdentafréttir að gjaldið verði hugsanlega um 1.500 krónur sem verður greitt mánaðarlega.

„Nemendum og starfsfólki mun verða boðið að skrá bíl sinn á lista og greiða fyrir það mánaðargjald og geta þá lagt bíl sínum án frekara gjalds. Hægt verður að skrá sig á listann og greiða mánaðarlega þar til viðkomandi afskráir sig frá og með næsta mánuði á eftir afskráningu.“

Aukin umferð ýtir undir þörf á gjaldtöku

Uppbygging og fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu kalla á aukna umferð. Rektor segir það auka þrýsting á nýtingu bílastæða þar sem fólk utan HÍ munu nýta sér frí bílastæði á háskólasvæðinu. Gjaldtaka dregur úr utanaðkomandi fólki sem myndu leggja í bílastæði skólans að sögn Jóns, þar sem fullt gjald verður þá tekið af viðkomandi einstaklingum (öðrum en starfsmönnum og nemendum HÍ).

Verður komið til móts við nemendur?

Röskva hefur lagt áherslu á að fá U-Passa, lággjalda samgöngukort fyrir stúdenta, sem mótvægi við gjaldtökuna. Rektor segir samtalið virkt við Strætó um möguleika á afsláttarverði fyrir nemendur og starfsfólk. Jón segir að mótframlag Háskólans við nemendur eigi eftir að koma betur í ljós en það mun ráðast af fjárhagsstöðu HÍ og samningum við viðkomandi aðila.