Heim Fréttir Röskva og Vaka – Breikkar háskólaupplifunina að taka þátt í stúdentapólitíkinni

Röskva og Vaka – Breikkar háskólaupplifunina að taka þátt í stúdentapólitíkinni

Samsett mynd

,,Vinir mínir drógu mig inn í þetta og maður kynnist bara svo ótrúlega mikið af nýju fólki“ segir Katla Ólafsdóttir oddviti Röskvu í stúdentaráði. Blaðamaður Stúdentafrétta ræddi við hana og Sæþór Má Hinriksson fromann Vöku um stúdentapólitíkina, áherslur og stefnur hreyfinganna tveggja.

Röskva og Vaka eru stúdentahreyfingar innan Háskóla Íslands, saman mynda þessi félög stúdentaráð Háskóla Íslands. Í stúdentaráði eru 15 fulltrúar og kosið er árlega í ráðið, í seinustu kosningum náði Vaka meirihluta en áður hafði Röskva verið í meirihluta í sjö ár. Í dag eru 9 af 17 meðlimum stúdentaráðs Vökuliðar og 8 af 17 Röskvuliðar, einnig hafa félögin sæti í háskólaráði og á háskólaþingi.

Alltaf sameiginlegt markmið að vinna að hagsmunum stúdenta

Katla er á öðru ári í stjórnmálafræði við Háskólann, hún byrjaði sem nýliðafulltrúi á fyrsta árinu sínu og hefur ekki skilið við starfið síðan, hún segist hafa heillast af dugnaðinum metnaðinum innan félagsins. Katla segir að helstu áherslur Röskvu séu jafnrétti, róttækni og heiðarleiki, þetta eru jafnframt slagorð fylkingarinnar. Hún segir grunnstef Röskvu vera það að berjast alltaf fyrir jafnrétti stúdenta hvort sem það eru aðgengismál, kynjajafnrétti eða fjárhagslegt jafnrétti. ,,Róttæknin í þessu er svo svolítið þannig að við grípum til aðgerða þegar það er ekki hlustað á okkur”. Heiðarleikann segir hún felast í gagnsæi og vönduðum vinnubrögðum. 

Merki Röskvu

Sæþór Már Hinriksson, oftast kallaður Dósi, er formaður Vöku og þriðja árs nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann segir ánægjulegt að Vaka sé að byggjast upp aftur eftir langa sigurgöngu Röskvu. Gleðst hann yfir því að nefndir innan fylkingarinnar séu að verða öflugri og segir hann það vera spennandi að fylgjast með þessu vaxandi starfi. ,,Það er nýtt fólk sem er búið að vera koma inn síðastliðin tvö, þrjú ár og okkar aðalstef er í rauninni bara að við viljum ekki auka kostnað á stúdenta, það eru okkar helstu áherslur og hvað fólk pælir mest í”. Hann segir stefnuskrár fylkinganna vera líkar enda séu þær báðar að vinna að hagsmunum stúdenta. 

Merki Vöku

Geta komið upp deilumál

Samstarf Röskvu og Vöku í stúdentaráði gengur vel samkvæmt Kötlu og Sæþóri. Bæði segja þau stúdentaráð fyrst og fremst vera þrýstiafl, þó svo að það hafi engin völd. Þau segja að auðvitað komi upp deilumál eins og venjulegt er í svona starfi en að allt gangi vel. Sæþór segist eiga marga góða vini í Röskvu ,,Ég lagði bara upp með það hjá Vöku að við viljum vinna með Röskvu, vera vinir þeirra og hefur það gengið vel, þetta er upp til hópa mjög skemmtilegt fólk”.

Katla er sammála því að samstarfið gangi vel ,,Já ég myndi segja að það væri ágætur samhljómur sérstaklega þegar kemur að almennum hagsmunamálum en það eru kannski bara ólíkar áherslur innan félaganna”. Katla tekur líka fram að í stúdentaráði sé markmið þeirra allra að koma hlutum í gegn og berjast fyrir hagsmunum stúdenta. Sæþór segir helsta muninn á stúdentahreyfingunum  liggja í vinnubrögðunum, ,,Við myndum kannski ekki fara að halda kröfugöngu og krefjast einhvers, frekar myndum við halda fund fyrst og sjá svo hvort eitthvað róttækt þyrfti að gera”. 

Mikilvægt að hafa samkeppni

Röskva hefur í langan tíma verið í meirihluta í stúdentaráði, Sæþór segir það hafa munað litlu að Vaka hefði þurrkast út á tímabili. ,,Það er mjög mikilvægt að hafa jafnvægi svo við getum veitt hvort öðru aðhald” segir Sæþór og bætir við að auðvitað sé þetta pínu pólitískt vegna þess að það sé mikilvægt að hafa tvær fylkingar svo að ein fylking geti ekki tekið ákvarðanir án rökstuðnings. Katla nefnir líka að báðar fylkingar séu orðnar mjög öflugar, ,,Röskva var í meirihluta í sjö ár og núna er Vaka komin í meirihluta og er þá kannski meira áberandi”. 

Breikkar upplifun á háskólalífinu

Sæþór hvetur alla til þess að taka þátt í svona starfi, hann segir það alls ekki vera skilyrði að hafa svakalegan áhuga á stúdentapólitík til þess að ganga í félögin ,,Það eru mjög margir sem byrja og hafa ekki áhuga en svo kannski fæðist áhuginn, þetta er samt umfram allt félagsskapur”. Sjálfur segist hann hafa byrjað í viðskiptafræði við háskólann ásamt 300 öðrum nemendum ,,Ég kynntist kannski svona fimm manns úr þessum hópi og fannst kannski ekkert rosalega gaman í háskóla, svo gekk ég í Vöku og kynntist allt í einu fullt af fólki af allskonar fræðasviðum”. 

Katla er sammála Sæþóri, hún segir það hafa breikkað háskólaupplifunina mikið að taka þátt í stúdentapólitíkinni. ,,Vinir mínir drógu mig í þetta og maður kynnist bara svo ótrúlega mikið af nýju fólki og ég byrjaði líka m.a. í þessu út af félagslífinu”. Eins segir Katla þetta vera frábæran vettvang til þess að koma skoðunum sínum á framfæri sérstaklega varðandi hagsmunamál. 

Báðir viðmælendur benda á að alltaf sé hægt að skrá sig í stúdentahreyfingarnar. Báðar fylkingar standa einnig fyrir blaðaútgáfum og viðburðum svo eitthvað sé nefnt, allt er þetta vel auglýst á miðlum þeirra. Stefnuskrár og aðrar upplýsingar má finna inn á vefsíðum og samfélagsmiðlum fylkinganna.

Upplýsingar um starf Vöku

Upplýsingar um starf Röskvu