Heim Fréttir Sáttamiðlun óásættanleg

Sáttamiðlun óásættanleg


Í kynferðisbrotamálum er yfirleitt stuðst við réttarkerfið og refsingu í leit að réttlæti. Rannsóknir sýna hinsvegar að þolendur kynferðisofbeldis líta á réttlæti sem blæbrigðaríkt og flókið fyrirbæri og þörf er að bættri stöðu þolenda í réttarkerfinu.
Brotaþolamiðað réttlæti og þróun þess var umfjöllunarefni alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var 28.september síðastliðinn í hátíðarsal Háskóla Íslands. Eitt af umræðuefnum ráðstefnunnar var því hugtakið uppbyggileg réttvísi eða restorative justice. Hugmyndafræði sem hefur á undanförnum árum rutt sér til rúms í umræðu um breytta verkferla í kynferðisbrotamálum.

Hildur Fjóla Antonsdóttir

Fundarstjóri ráðstefunnar var Hildur Fjóla Antonsdóttir, nýdoktor við EDDU-rannsóknarsetur Íslands og var ráðstefnan að mörgu leiti þróuð útfrá doktors ritgerðinni hennar þar sem hún skoðar hugtakið réttlæti útfrá sjónarhóli þolenda kynferðisbrota.

Dónalegt Hugtak

Ef sakfellingarhlutfall í nauðgunarmálum er eins lágt og tölfræðileg gögn benda til er augljóst að eitthvað þarf að breytast.
Einn möguleiki til að eiga við brot utan dómskerfisins er ferli sem kallast uppbyggileg réttvísi. En í staðinn fyrir að kalla þessa verkferla uppbyggilega réttvísi er miðað við hugtakið sáttamiðlun hérlendis. Rætt var á málþingi á ráðstefnunni, hvaða hættur þessi þýðing feli í sér. Þetta hugtak getur orðið til þess að þolendur forðist þetta úrræði og breyttir verkferlar fái ekki að líta dagsins ljós.
Sáttamiðlun er tól sem er notað til að ná fram sáttum, en uppbyggileg réttvísi snýst um að gerandi átti sig á þeim skaða sem brot hans ollu, gangist við brotinu og bæti fyrir það.

Í viðtali bendir Hildur Fjóla á að þetta sé óásættanlegt fyrir þolendur. „En eins og var minnst á hér í dag þá erum við með þetta hugtak sáttamiðlun í staðinn, þetta er náttúrulega bara dónalegt fyrir þolendur kynferðisbrota að bjóða upp á þetta hugtak. Þetta snýst ekki um að leita sátta, ætlar þú að sættast við gerandann eða hvað er planið?“