Heim Fréttir Sem afreksmaður sleppir maður ekki æfingu

Sem afreksmaður sleppir maður ekki æfingu

„Það er krefjandi, sérstaklega þegar þú ert að spila seint á kvöldin eða fara í ferðalög. Við í FH þurfum að fara til Vestmannaeyja, Akureyrar og Ísafjarðar. Maður þarf að reyna samtvinna skólann og handboltann, læra í rútunni. Það er ekki auðvelt að gera það. Skipulagið þarf að vera númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Jakob Martin Ásgeirsson, handboltamaður í FH og nemi í sálfræði í HÍ.  

Lestrarálag er mikið í sálfræðinámi Háskóla Íslands og því segir Jakob agi og skipulag vera mikilvæga þætti til að námið gangi upp samhliða handboltanum.  

„Maður reynir að setja sér lítil markmið. Til dæmis á mánudögum þarf ég lesa ákveðið margar blaðsíður. Verkefni sem ég ætti að skila á miðvikudegi þarf ég að klára á þriðjudegi.“ 

Þegar kemur að æfingum seinni partinn þarf Jakob meðvitað að skipta úr lærdómnum yfir í einbeitingu fyrir æfingu.  

„Maður þarf að staldra við fyrir æfingu, undirbúa sig öðruvísi. Koma sér í fókus, úr háskólalífinu og fara yfir á æfingu. Maður þarf að skilja allt eftir heima þótt það sé próf daginn eftir.“ 

Yfirleitt nær Jakob hefðbundnum æfingum en lendir stundum í að taka æfingu sjálfur ef skóli og æfing skarast. 

„Ég lendi aldrei í að sleppa hefðbundinni æfingu. Oftast er skólinn búinn fyrir tvö hjá mér. Ég hef tvisvar lent í því að ég sé í prófi frá fjögur til sex á föstudegi. Við spilum oft á fimmtudögum og sunnudögum. Þá er endurheimtaræfing á föstudeginum. Þá fæ ég planið sent og fer eftir prófið mitt í Kaplakrika að taka æfinguna einn.“ 

Mikil kyrrseta hefur slæm líkamleg áhrif á Jakob. Sérstaklega þegar álagið er mikið.  

„Maður byrjar að stífna upp í bakinu og rassinum. Í gær spilaði ég allar 60 mínúturnar, var fínn í leiknum, leikurinn var búinn 8, ég var sofnaður 10 af því ég var dauðþreyttur. Svo vaknaði ég klukkan 7. Reyndi að byrja lesa eitthvað, ennþá að hugsa um leikinn. Hvað hefði mátt fara betur og svo framvegis. Svo byrjar skólinn klukkan tíu og er til tvö. Þar siturðu meirihlutann af tímanum. Svo ferðu heim í tvo tíma og situr oftast. Svo beint á æfingu. Ég er sérstaklega stífur í mjöðmunum fyrir. Mér líður stundum eins og ég sé sjötugur. Ég þarf að fá mér upphækkandi borð. Það er næst á dagskrá.“ 

Jakob hefur heyrt frá eldri íþróttamönnum að ef þeir geti ekki mætt í próf á tilsettum degi þá missi þeir einfaldlega af því. 

„Ég hef heyrt þessar gömlu tuggur hjá gömlum afreksíþróttamönnum sem hafa verið að læra hitt og þetta. Skólinn er ekkert liðlegur til dæmis varðandi ferðalög. Ef það er próf. Þá missiru bara af prófinu.“ 

Jakob er í fullu námi með handboltanum og gefst enginn tími til að vinna aukalega samhliða þessu tvennu. 

„Ég er á námslánum. Ég get ekki haldið sjálfum mér uppi á handboltanum. Svo er ég á bíl til að komast á milli. Borga heim og svoleiðis. Afreksumhverfið hér á Íslandi er ekkert upp á tíu. Ef þú pælir í að reyna mennta þig með íþróttum. Ef þú værir í fótbolta þá eru allt önnur laun þar en í handbolta.“ 

Það er ekki sjálfgefið að sleppa æfingu þegar samkeppnin er mikil. Leikmenn gera einnig samninga við sín félög og þurfa standa við þá. Jakob hefur rætt þetta við þjálfarana sína. 

„Ég hef átt þetta samtal við þjálfarana. Eins og fyrir próf. Þeir eru alveg hlyntir því að ég sleppi æfingu. Ég hef lent í því tvisvar. Sem afreksmaður þá sleppir maður bara ekkert æfingu. En maður þarf líka að mennta sig. Þeir styðja við það. Ég þarf að spila alla leiki. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Maður þarf að skipuleggja sig í kringum það. Eins og í gær var maður lærandi fyrir leik. Svo ætlar maður að reyna læra eftir leik. Maður er bara búinn á því og hátt uppi eða lágt niðri. “