Heim Fréttir Sjón er sögu ríkari

Sjón er sögu ríkari

Hægt er að nálgast fjölda kvikmynda inn á heimasíðu Úkraínuverkefnisins, sem er á vegum Háskóla Íslands en þar er að finna upplýsingar um menningarlíf, sögu, fjölmiðla, stjórnmál í Úkraínu og fréttir af stríðinu. Myndirnar hafa verið sýndar á viðburðum verkefnisins og eiga fleiri eftir að bætast í safnið. „Við erum að sýna mikið af heimildarmyndum sem veita ákveðna innsýn og vekja fólk til umhugsunar,“ segir Helga Brekkan verkefnastjóri Úkraínu verkefnisins. Helga segir myndirnar oft vera sýndar á viðburðum ásamt pallborðsumræðum þar sem fólk úr ýmsum áttum tekur þátt. Úkraínuverkefnið

Úkraínuverkefnið

Markmiðið með Úkraínuverkefninu, sem er í umsjón Helgu Brekkan og Jón Ólafssonar, er að auka þekkingu og skilning á Úkraínu í íslensku samfélagi. Sérstök áhersla er lögð á menningarlíf, sögu, fjölmiðla og stjórnmál. Verkefnið á að stuðla að því að byggja upp tengsl við þann stóra hóp fólks sem komið hefur hingað frá Úkraínu og við aðila, hérlendis sem erlendis, sem hafa góða þekkingu á málefnum Úkraínu.

„Þúsundir Úkraínumanna búa nú á íslandi og það er þörf fyrir meiri þekkingu á landi og þjóð og það er líka meiri þörf fyrir að fólk viti um stríðið, innrás Rússa og hvernig það hefur leikið Úkraínumenn,” segir Helga Brekkan um breytta stöðu Íslendinga gagnvart Úkraínu.

Helga kemur einnig inn á mikilvægi þess að skapa þennan upplýsingabanka þar sem hægt er að nálgast áreiðanlegar upplýsingar og bætir við að alls staðar sé að finna fólk sem trúir á áróður frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Rússlandi, meira að segja á Íslandi.

Heimildarmynd um reynsluheim túlka

Þriðjudaginn 14.febrúar verður haldið málþing á vegum Úkraínuverkefnis en málþingið mun fjalla um áföll og áhrif stríðs á menningu og samfélag. Málþingið hefst á heimildarmyndinni In Flow of Words eftir Eliane Esther Bots en myndin fjallar um þrjá túlka sem segja þar frá sársaukafullri reynslu sinni við túlkun á milli vitna, fórnarlamba og gerenda eftir stríðið í Bosníu.

Alma, Besmir og Nenad eru fyrrverandi túlkar fyrir  stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, ICTY. Túlkarnir voru aldir upp á Balkanskaga og því þekkja þeir vel sögu stríðsins sem fram fór á svæðinu á tíunda áratug síðustu aldar. Engu að síður var þeim gert að vera hlutlausir við túlkun hvort sem um fórnarlömb væri að ræða eða þá sem grunaðir eru eða sakaðir eru um að fremja stríðsglæpi.

Brostin bönd

Fyrsti viðburður Úkraínuverkefnisins var sýning á heimildarmyndinni Brostin bönd sem fjallar um það hvernig stríðið hefur haft áhrif á rússneskar fjölskyldur.

Í pallborðsumræðum þar voru meðal annars Yulia Zhatkina sem er fráKyiv og er markaðsráðgjafi og sálfræðingur. Hún hefur þurft að flýja tvisvar vegna stríðsins og býr nú á Íslandi ásamt börnunum sínum tveimur. Einnig tók kvikmyndargerðarkonan Anastasia Bortuali þátt en hún býr nú í Ásbrú og er sjálf að vinna í heimildarmynd um úkraínska flóttamenn á Íslandi.

Yulia Zhatkina og Anastasia Bortuali hafa sömu sögu að segja og margir í Úkraínu og Rússlandi. Sterk fjölskyldubönd liggja oft á milli þessara tveggja landa og „oft er það þannig að einhverjir í fjölskyldunni horfa bara á áróður Pútíns og eru bara í einhverjum allt öðrum raunveruleika,“ segir Helga.

Myndin fjallar um það hvernig stríðið kom ekki aðeins til Úkraínu heldur hélt innreið sína í rússneskar fjölskyldur. Rætt er við fólk sem upplifað hefur upplausn fjölskyldu- og vinasambanda vegna ólíkra viðhorfa til innrásar Rússa í Úkraínu.

Ekki aðeins heimildarmyndir

Ein af kvikmyndunum sem hægt er að nálgast á heimasíðu Úkraínu verkefnisins er myndin Shadows of Forgotten Ancestors en það er úkraínsk kvikmynd frá 1965 eftir sovésk-armenska kvikmyndagerðarmanninn Sergei Parajanov. Kvikmyndin er byggð á skáldsögu úkraínska rithöfundarins Mykhailo Kotsiubynsky. Þessi áleitna kvikmynd er full af áhrifamiklum myndum og gefur ítarlega lýsingu á úkraínskri menningu í Karpatafjöllum. Þetta var fyrsta stóra verk Parajanovs og hlaut hann alþjóðlega viðurkenningu. Myndin er ein af tiltölulega fáum sovéskum kvikmyndum sem framleiddar eru á úkraínsku.

Myndin fjallar um líf tiltekins undirhóps Úkraínumanna sem lengi hafa búið í Karpatafjöllum í vestri. Land þeirra hafði löngum verið stjórnað af mismunandi erlendum völdum en þrátt fyrir þetta tókst þeim að varðveita sérstöðu sína, tungumál og menningu.