Heim Fréttir Stúdentar geta fengið listaverk að láni í Norræna húsinu

Stúdentar geta fengið listaverk að láni í Norræna húsinu

Artótek

Artótek Norræna hússins er sniðug lausn fyrir stúdenta sem vilja hafa list á veggjunum heima hjá sér fyrir lítinn sem engan pening. Hægt er að fá þrjú verk lánuð til að taka með sér heim í þrjá mánuði í senn með því að greiða fyrir venjulegt bókasafnskort. 

Oft eru stúdentaíbúðir fyrsta heimili fólks eftir að það flytur að heiman og því fylgir oft berir veggir og ópersónulegt umhverfi. 

Norræna húsið

Erling Kjærbo yfirbókavörður í Norræna húsinu segir listútlánin vinsæl en þau eru í kringum 600 á ári. „Nemendur koma oft og fá lánuð verk fyrir stúdentaíbúðirnar sínar en flest þeirra sem koma eru fastagestir sem búa hér í nágrenninu og hafa komið í mörg ár í röð, fjölskyldur og stofnanir,“ segir Erling. 

Hátt í 1500 stúdentaíbúðir eru nú í útleigu hjá FS. Það gefur því auga leið að þrátt fyrir að stúdentar nýti sér þennan kost þá eru þau ekki mörg hlutfallslega, þrátt fyrir að búa í mikilli nálægð við Norræna húsið. Mögulega vegna þess að þau vita ekki að það sé hægt. 

Artótekið er einnig sniðugt fyrir skiptinema sem koma tímabundið til landsins og eru ekki í þeim hugleiðingum að fjárfesta í skrautmunum fyrir heimili sín. Erling segir að þetta sé sérlega skemmtilegt fyrir þau sem eru frá Norðurlöndunum. „Til dæmis er ég frá Færeyjum og við erum með listaverk frá listafólki sem eru mjög vinsæl í Færeyjum, svona risastór færeysk nöfn. Þannig fyrir mig er það mjög gaman að koma til Íslands og að geta haft færeyska list á veggjunum.“

Artótekið

Reynslan hefur sýnt að ólíklegt sé að verkin skemmist þegar þau eru tekin með heim. „Fólk ber almennt mikla virðingu fyrir verkunum þegar þau fá verk lánuð og við höfum ekki lent í neinum stórum vandræðum. Við römmum verkin inn í trausta álramma með mjög sterku plexígleri, þannig þeir geta tekið við hnjaski. Stundum missir fólk þau en hingað til hefur ekkert gerst,“ segir Erling.

Hlutverk Artóteksins er að lána út listaverk. „Við köllum þetta list til notkunar, þau eiga að vera heima hjá fólki,“ segir Erling. Artótekið er ekki nýtt af nálinni en hefur verið starfrækt síðan 1976 en þá fékk Norræna húsið 200 grafíkverk að gjöf frá Bandalagi norrænna grafíklistamanna með því skilyrði að Norræna húsið myndi lána verkin út til almennings. Nú eru verkin um 600 talsins og því er nóg úr að velja.