Innleiðing U-passa, eða umhverfispassa, felur í sér að stúdentum verði gert kleift að kaupa samgöngukort á hagstæðu verði, með það að markmiði „að efla umhverfisvæna ferðamáta,“ eins og segir í stefnu Stúdentaráðs.
Stúdentaráð sendi frá sér yfirlýsingu um innleiðingu U-passa þar sem þau krefjast þess að ríkið auki fjármagn til almenningssamgangna.
Loftslagsaðgerðir stjórnvalda nýtist helst tekjuhærri hópum
Í byrjun október hækkaði verðskrá Strætó um 12,5 prósent. Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, segir að það myndi bæta fjárhagsstöðu stúdenta að fá slíkt kort. „Það er mjög mikilvægt að leitað sé leiða til að fólk noti virka ferðamáta í auknu mæli, bæði til þess að minnka umferðina við skólann og fyrir loftslagið. Að hækka stöðugt gjaldið í almenningssamgöngur er ekki til þess fallið,“ segir Rebekka.
Yfirlýsing Stúdentaráðs kemur einnig í kjölfar greiningar ASÍ þar sem borið er saman greiðslur ríkisins til almenningssamgangna og niðurgreiðslur til kaupa á nýorkubílum. ASÍ greinir frá því að „Framlag ríkisins til Strætó var rúmur milljarður árið 2021 en 1,8 milljarðar til viðbótar hefði þurft til að gera þjónustuna gjaldfrjálsa. Til samanburðar námu niðurgreiðslur ríkisins vegna kaupa á rafbílum, tengiltvinnbifreiðum og vetnisbifreiðum 9 milljörðum kr. árið 2021.“ Þar af leiðandi mun stærsta loftslagsaðgerð stjórnvalda gagnast helst efnameiri hópum þar sem þeir séu líklegri til kaupa nýorkubíla.
Samkvæmt Rebekku hefur Stúdentaráð talað fyrir U-passanum í mörg ár og munu halda áfram að berjast fyrir aukni fjármagni til almenningssamgangna. „Við í stúdentaráði látum okkur varða öll þau svið sem snerta það að vera stúdent og stúdentar eru almennt tekjulægri. Þar að auki nýta tekjulægri hópar og yngra fólk sér þjónustu strætó í auknum mæli. Þess vegna viljum við taka upp U-passann,“ segir Rebekka.