Heim Fréttir Þjóðfundur ungra kvenna og kvára – rödd nýrrar kynslóðar í réttindabaráttu

Þjóðfundur ungra kvenna og kvára – rödd nýrrar kynslóðar í réttindabaráttu

Ljósmyndari Snorri Zóphóníasson. Mynd sótt af Kvennasögusafni

Þann 24. október næstkomandi eru fimmtíu ár síðan konur gengu út frá störfum sínum og efndu til fyrsta kvennafrídagsins. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum fimmtíu árum en baráttan heldur áfram og samtökin Kvennaár voru stofnuð í tilefni af þessum tímamótum. Samtökin efna til þjóðfundar ungra kvenna og kvára um helgina.

Samtökin samanstanda af rúmlega fimmtíu öðrum minni samtökum og er yfirlýst markmið þeirra að halda baráttunni fyrir samfélagi þar sem öll búa við jöfn tækifæri áfram, þess vegna hafa þau boðið til Kvennaárs 2025. Í tilefni þess verða haldnir margvíslegir viðburðir yfir árið á vegum þeirra og er þjóðfundurinn einn liður í því. Finnborg Salmóme Steinþórsdóttir einn meðlima framkvæmdarstjórnar Kvennaárs og aðjúnkt í kynjafræði við Háskóla Íslands segir meginmarkmið fundarins vera að fá yngri kynslóðina að borðinu og heyra hvað þeim finnst brýnast í réttindabaráttu kynjanna í dag.

„Það er ótrúlega gaman að fá ólíka sýn og sjónarmið og það er þess vegna sem það er svona mikilvægt að hafa þjóðfund til þess að draga fram þessi sjónarmið, hvað er það sem við þurfum að berjast fyrir, þá sérstaklega fyrir þennan hóp“.