Heim Fréttir „Þú vilt alltaf tilheyra einhverjum hópi“

„Þú vilt alltaf tilheyra einhverjum hópi“

„Íþróttir og landsliðin okkar snúast miklu meira um þjóðarstolt og samfélag og að tengjast og vera hluti að einhverju stærra en við erum sem einstaklingar, heldur en handbolta eða fótbolta,“ segir dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði. Eflaust hefur það ekki farið framhjá mörgum íbúum landsins að íslenska landsliðið í handbolta tók nýverið þátt í heimsmeistaramótinu í handbolta. Íslenska landsliðið endaði í 12. sæti og eins og gengur og gerist mynduðust líflegar umræður um landsliðið, hvort sem það voru sérfræðingar á fjölmiðlum, kaffihúsaspjall eða skoðanir settar fram með lyklaborðið að vopni. Ákvað því blaðamaður að kíkja í stutta heimsókn á skrifstofu Viðars og ræða þar landsliðið frá félagsfræðilegu sjónarhorni.

Í samtali við Viðar kemur fram hvernig íþróttir virka sem tengipunktur fyrir einstaklinga samfélagsins. Hægt sé að horfa til félagsfræðingsins Emiles Durkheims og skrifa hans um að með því að upphefja sameiginleg tákn séu einstaklingar í raun að upphefja hinn sameiginlega kjarna samfélagsins.

„Þú vilt alltaf tilheyra… tilheyra einhverjum hópi. Hvað varðar íslensku landsliðin þá er þetta alveg sérstaklega merkilegt vegna þess að fámennið gerir það að verkum að við erum alltaf með pínu minnimáttarkennd gagnvart ýmsu en við fáum einhverja svona trú á sjálfa okkur og sjálfsvirðingu með því að ná árangri á alþjóðasviði íþrótta. Það gefur okkur einhvern svona sess og við erum þjóð á meðal þjóða og gefur okkur sterkari sjálfsmynd.“

„Fólk var bara að fara til að upplifa stemmninguna og vera með“

Áhugaverð rannsókn sem Viðar gerði sýnir vel fram á hvernig þátttaka landsliða Íslands á stórmótum myndar sterka tengingu í samfélaginu:

„Ég gerði rannsókn í kringum fótboltann þegar landsliðið fór á HM árið 2018. Þá gerði ég spurningarlistakönnun sem náði til HM 2018, EM 2016 og EM kvenna árið 2017. Bara hverjir voru að fara og hvað þetta gerði fyrir þjóðina. Annars vegar kom það út í þeirri rannsókn að bara það að Ísland væri að keppa á HM hafði rosalega góð áhrif á samfélagið. Fólki bara leið betur, það var glaðara, það fann til sín, það var rosalegt þjóðarstolt, það voru allir glaðlegri og hjálplegri. Það bara bætti samfélagið afþví að þarna fundum við að það var einhver sameiginlegur tengipunktur og við erum bara saman í þessu, við erum samfélag. Það kom jafnframt úr því, og það var mjög sérstakt, að þeir sem fóru út á þessar fótboltakeppnir, 40% af þeim höfðu engan áhuga á fótbolta. Fólk var bara að fara til þess að upplifa stemmninguna og vera með, þú veist, Ísland, þjóðarstolt og allt þetta. Og þetta sjáum við rosa sterkt í gegnum handboltann eins og í hverjum janúar þá eru þessi stórmót sem hjálpa okkur í skammdeginu og svona.“

Markmiðasetning og væntingar

Nú á dögunum sendi Viðar frá sér pistil inn á heimildin.is, sem er nýr fjölmiðill sem varð til við sameiningu Stundarinnar og Kjarnans. Þar varpaði Viðar fram sínum hugleiðingum um markmiðasetningu og væntingar í kjölfar heimsmeistaramótsins og ræddi Viðar það nánar í samtali sínu við blaðamann:

„Ég held að markmiðasetning sé oft ofmetinn. Það er litið á markmiðasetningu sem einhverskonar upphaf og endir alls og allt þetta en ég hef svo margoft lent í því að lið hafa sett sé markmið sem hafa bara komið í bakið á þeim og bara skemmt fyrir. Ég var þarna í þessari grein einmitt að taka þetta samband, þessa tvo hluti, að fyrir Ísland og ef maður skoðar sögu Íslands í handbolta, strákana okkar, þá er eiginlega bara samasem merki á milli þess að ef væntingar eru miklar þá helst það í hönd við mikil vonbrigði (…) og þegar væntingar eru ekki miklar þá stígum við oft upp og gerum ótrúlega hluti. Þessvegna er ég að segja að það er mjög óskynsamlegt eða óheppilegt fyrir handboltalandsliðið að ýta undir væntingar þjóðarinnar og segjast ætla að vera heimsmeistarar og hvað þetta nú var… vegna þess að það eru bara extra steinar í bakpokana á herðar leikmanna á vellinum. Þeir eru bæði í þessari keppni sem reynir á allt og það má ekkert út af bregða ef þið ætlið að vera heimsmeistara, og svo ertu með væntingar samfélagsins sem verða rosalega miklar og svona áhrifavaldar hafa verið að ýta þær upp á síðustu mánuðum og ofan á það kemur að þú vilt ekki bregðast þjóðinni sko… þannig þú hefur öllu að tapa en voða litlu að vinna, það má ekkert út af bregða þannig ég held að þetta sé bara mjög slæm og óheppileg blanda að fara í keppni með þetta allt á bakinu.“

Nefnir Viðar þó að alls ekki eigi að setja engar væntingar á liðið, en betur mætti gera þegar kæmi að hvernig þeim væntingum er hagað og hvernig þær eru settar fram:

„Ég er ekki að tala fyrir því að við eigum ekki að gera væntingar og liðið eigi ekki að stefna hátt. Það bara skiptir máli hvernig það er presenterað. Það er mikill árangur fyrir okkur að ná á stórmót, það er alls ekki sjálfsagt. Í handbolta erum við orðin vön því þannig við viljum fara að komast hærra en að vera á milli 10-20 og það er bara hið besta mál… en það er þetta samspil markmiða, væntinga og árangurs, það er bara okkur neikvætt þannig við þurfum kannski… og þeir sem koma að liðinu þurfa kannski að snúa þessu aðeins við og taka gömlu klisjuna einn leikur í einu vegna þess að það er miklu skynsamlegri uppbygging í væntingastjórnun. Hitt hefur ekki reynst okkur vel. Og kannski er það erfiðara fyrir okkur en aðra (…) væntingar þjóðarinnar hafa meiri áhrif held ég bara á Íslandi heldur en víða erlendis vegna þess að alltaf þegar fólk er svona nálægt leikmönnum, þetta eru frændur okkur og svona, þetta er svo nálægt okkur. Á meðan eins og í Frakklandi og svona þá er þetta bara einhver massi, þú tengir ekkert við það.“

Nefnir Viðar þá sambærilegt dæmi úr heimi tónlistarinnar sér til stuðnings:

„Ég man þegar Of Monsters and Men skemmtu hérna í Garðabæ fyrir einhverjum árum síðan og þau sögðu að þau voru svo stressuð skilurðu. Búinn að spila út um allan heim fyrir tugi þúsunda en svo að spila fyrir nokkur þúsund manns hérna var stressandi vegna þess að þetta er fólkið okkar, það er svo nálægt okkur, og þá er þetta samspil væntinga og frammistöðu erfiðara fyrir okkur heldur en í stærri þjóðum þar sem þú getur útilokað þetta sem einhvern andlitslausan massa. Það eru allskonar svona fletir í þessu sem ég er svona að reyna að benda á. Það er alltaf sagt að við ætlum að læra af hlutunum sko en við rýnum við aldrei í þá. Og svo bara byrjar eitthvað áfram og við gerum sömu mistökin aftur og aftur. Þannig ég er eitthvað að reyna aðeins að vekja umræðu og fá fólk til að hugsa um aðeins aðra hluti en hvort við hefðum átt að skipta inn fleiri leikmönnum í leik á móti Ungverjum. Af því þetta er aldrei bara eitthvað eitt, það eru allskonar hlutir sem koma saman sem að móta árangur liða.“

Viðar hefur í gegnum tíðina einnig sinnt ráðgjafarstörfum fyrir mörg af hverjum bestu íþróttaliðum landsins og er einnig höfundur bókarinnar Sport in Iceland: How Small Nations Achieve International Success.