Heim Fréttir Tunga og tengsl

Tunga og tengsl

Ljósmynd: Hörður Sveinsson

Sérstök áhersla er lögð á atvinnumál og undirbúning nemenda Háskóla Íslands fyrir þátttöku á vinnumarkaði á Atvinnudögum Háskóla Íslands sem standa yfir til 3. febrúar. Bragi Valdimar Skúlason, íslensku- auglýsinga- og tónlistarmaður er einn þeirra sem taka þátt í dagskránni en hann fjallaði um mikilvægi þess að koma vel fyrir sig orði í tengslamyndun og atvinnuleit.

Bragi Valdimar fór yfir hvernig eigi að lesa í aðstæður, þekkja viðmælendur og nýta sér málið til að vekja á sér athygli í atvinnuleit.

„Tungumál er tæki sem við notum til að eiga samskipti og það gildir um öll tungumál. Því fleiri sem þú kannt almennilega, því betra,“ sagði Bragi og líkti tungumálum við að eiga gott verkfærasafn.

Ljósmynd: Hörður Sveinsson

Tungumálið nýtist bæði í orði og skrifum og þá sérstaklega við atvinnuviðtöl og atvinnuumsóknir. Bragi sagði það vera mikla kúnst að skrifa góða atvinnuumsókn. „Hún þarf að skera sig úr en ekki of mikið.“

Það sé því mikilvægt að orða hlutina rétt á prenti því vinnuveitandi fær ákveðna mynd af þeim sem er á bak við orðin og skiptir því orðbragð máli. „Þið megið ekki vera of kammó en samt ekki of þurr. Ekki of sniðug en ekki of snubbót heldur. Ekki of ítarleg en ekki of einföld og alls ekki of flókin,“ sagði Bragi.

Bragi sagði flestar atvinnuumsóknir vera keimlíkar þar sem flestir fylgja ákveðnu sniði en fái vinnuveitandi umsókn sem er „of flippuð með engum upplýsingum“ gæti hann fyllst grunsemdum.

Bragi sagði að sá sem lesi atvinnuumsóknina hugsi hvort manneskjan uppfylli kröfurnar um starfið, hvort hún sé áhugasöm um starfið og hvort hún nái athygli þess sem les umsóknina. Þessu öllu þarf að koma á framfæri en ekki í of löngu máli því þá séu allir búnir að missa athyglina, „því fólk nennir jú ekki að lesa neitt lengur,“ sagði Bragi.

Æfingin skapar meistarann

Góð atvinnuumsókn nægir þó ekki þar sem fólk þarf að geta staðið sig í atvinnuviðtali. Bragi sagði það skipta máli að tala við fólk, ekki til þess. „Horfa í augun á fólki, ná sambandi, án þess að vera rosalega óþægilegur, bannað að stara í atvinnuviðtölum,“ sagði Bragi.

„Það þarf að finna jafnvægi og þetta er þjálfun og ekkert okkar er fullkomið í þessu,“ sagði Bragi og bendir á að gott sé að æfa sig fyrir atvinnuviðtöl þannig að maður sé tilbúinn.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson

Til þess að þjálfa íslenskuna sagði Bragi bestu leiðina til að læra tungumál sé að lesa og æfa sig. Þá benti hann einnig á að þó fólk skauti aðeins til á reglum eða beygingum og skilji ekki öll orð eins og skot þýði það ekki að fólk sé lélegt í íslensku. „Við erum nefnilega framúrskarandi góð í íslensku miðað við restina af heimsbyggðinni,“ sagði Bragi glettnislega.

Varðandi atvinnnuleit og atvinnuumsókn sagði Bragi: „Þið eruð vopnuð tungumáli sem þið treystið ykkur að nota. Því betur sem þið eruð undirbúin, því betur komið þið fyrir hvort sem þið skrifið eða talið.“

Hægt er að horfa á erindi Braga í streyminu hér að neðan:

https://livestream.com/hi/tengslogtunga/videos/234847644