Heim Fréttir Flaggað grænu í fjórða sinn

Flaggað grænu í fjórða sinn

Grænfáninn var dreginn að húni Háskóla Íslands í fjórða sinn á dögunum. Skólinn hefur verið Grænfánaskóli síðan í mars 2020. Í því felst að skólinn uppfylli markmið í átt að sjálfbærni og umhverfisvænum háttum. Umhverfis- og Samgöngunefnd hefur sinnt verkefninu og skipuleggur ýmsa viðburði til að vekja nemendur og starfsfólk til umhugsunar um umhverfið. Nú er til dæmis átak í gangi sem kallast Hjólað í skólann, sem er innbyrðis keppni nemendafélaganna um samanlagðan kílómetrafjölda.

Markvisst unnið að bættri umhverfisvitund

Zakaría Soualem formaður Grænfánanefndarinnar

„Við fengum Grænfánann 2020. Þetta er ennþá tiltölulega nýtt verkefni sem er ennþá í þróun. Markmiðið með þessu verkefni er að auka umhverfisvitund nemenda og passa að ákveðin markmið [standist]. Að við séum ekki bara að gefa okkur að við séum umhverfisvænn skóli heldur sjá til þess að við setjum okkur skýr markmið og fylgjum þeim síðan,“ segir Zakaría Soualem, formaður Grænfánanefndarinnar, sem er í Umhverfis- og samgöngunefnd Háskóla Íslands. Hann er tengiliður skólans við Landvernd sem stendur fyrir verkefninu Skólar á grænni grein sem Grænfáninn er tákn fyrir. Það er alþjóðlegt verkefni en Landvernd sér um það á Íslandi og hefur gert frá árinu 2001 en meira má lesa um verkefnið á síðu Landverndar.

Zakaría sagði að til að vekja athygli á verkefninu hafi þau verið með ýmsa viðburði. Nefndin stóð fyrir skiptifatamarkaði, þar sem nemendur panti oft mikið af fötum á netinu. „Við vildum prufa þetta svo fólk sé ekki endilega að kaupa nýtt heldur endurnýja svona“. Skiptifatamarkaðurinn er slá sem stendur á Háskólatorgi og fær mögulega að standa þar eitthvað áfram meðan nemendur nýta sér hana. Þar má sumsé skilja eftir flíkur til að gefa þeim nýtt líf og næla sér í aðrar í staðinn. „Við vorum líka með afslætti á grænu kaffikorti til að fólk sé ekki að nota [einnota] kaffimálin.“

Grænfáninn blaktir að húni – ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson

Hvatt til virkra samgöngumáta

Frá afhendingu Grænfánans – Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson

Zakaría sagði margt framundan hjá Umhverfis- og samgöngunefnd, til að mynda loftslagsverkföllin, sem enn eru haldin á Ingólfstorgi á föstudögum. Nefndin er tengiliður við Unga Umhverfissinna sem standa að þeim. „Það verða oft svona vikur líka, eins og núna erum við með hjólað í skólann. Nemendafélögin keppa sín á milli að safna ferðum og kílómetra fjölda. Það nemendafélag sem nær mestum fjölda vinnur. Auðvitað er tekið tillit til stærðar nemendafélagsins því sum eru með fjögur hundruð nema en önnur bara þrjátíu.“ Keppnin stendur yfir núna og lýkur 2. október. Fylgjast má með viðburðum á vegum nefndarinnar á Instagram og Facebook síðum hennar.