Heim Fréttir „Umræða í fjölmiðlum endurspeglar ekki endilega það sem er að gerast í...

„Umræða í fjölmiðlum endurspeglar ekki endilega það sem er að gerast í samfélaginu“

„Ég held að hatursorðræða þurfi ekki endilega að vera annað hvort minni eða meiri nú en áður,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands og doktor í afbrotafræði.

Hatursorðræða hefur verið mikið til umræðu síðustu ár, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. „Við erum meðvitaðari, höfum meiri áhuga og erum opnari að tala um þetta en áður, ég held að það sé málið.“

Hún telur að samfélagsmiðlar hafi breytt miklu. Þar getur almenningur tjáð skoðanir sínar og komið fordómum á framfari. Einnig hafa lögin breyst. „Það er ekki mjög langt síðan við byrjuðum að fjalla um hatursorðræðu sem ólöglegt athæfi.“

„Breytingar á þessu hafa ekki verið mældar en ef við hefðum fyrir tíu árum ætlað að tala um hatursorðræðu. Þá er ég ekki viss um að ég hefði vitað um hvað væri verið að tala. Þetta er nýtt hugtak sem mikið hefur verið fjallað um. Mín skoðun er sú að háskólar gegni mikilvægu hlutverki í mælingum og rannsóknum. Það er mikil umfjöllun í samfélaginu um nýtt félagslegt vandamál, sem er aukin hatursorðræða. Umræða í fjölmiðlum endurspeglar ekki endilega það sem er að gerast í samfélaginu. Heldur aukin áhuga fólks á einhverju ákveðnu málefni. Hlutverk fræðafólks í háskólum væri að mæla hvort raunveruleg aukning eigi sér stað og fræða almenning. Hvort sem fræðafólk skrifi greinar, ekki bara ætlaðar í vísindatímarit eins og tíðkast, heldur greinar á einföldu máli. Líkt og skoðanagreinar sem birtast á Vísi og fleiri miðlum,“ segir Margrét.

„Það er mikilvægt að koma sinni þekkingu til fjölmiðla hvort sem það er að hafa beint samband við fjölmiðlana eða skrifa skoðanagreinar eins og birtast í Vísi og fleiri blöðum. Þá er það tekið upp af öðrum fjölmiðlum. Ég hef gert þetta varðandi mitt sérfræðisvið. Reynt að vera dugleg bæði þegar fjölmiðlar leita til mín að vera þá tilbúin að koma og tala um það,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði.