Heim Fréttir Útikennsla er ævintýri

Útikennsla er ævintýri

Hrafnhildur Sigurðardóttir útikennslukennari
Hrafnhildur Sigurðardóttir

„Útimenntun felur í sér ævintýramennsku þar sem námið er gert lifandi og skemmtilegt úti í náttúrunni“ segir Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari í Sjálandsskóla. Í Sjálandsskóla í Garðabæ er útikennsla stór þáttur í skólastarfinu og allir nemendur í 1.-7.bekk eru í útikennslu í hverri viku allan veturinn. Stúdentafréttir hitti verkefnastjóra útikennslunnar í Sjálandsskóla, Hrafnhildi Sigurðardóttur og ræddi við hana um útikennsluna og þátttöku kennaranema í útikennslunni.

Kennaranemar í íþrótta-og heilsufræði

Hrafnhildur segir að kennaranemar í áfanganum Útikennsla, útinám og heilsa sem kenndur er í íþrótta-og heilsufræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, komi í Sjálandsskóla þrisvar sinnum í áfanganum. Hún segir að fyrst fylgist þau með útikennslunni, síðan taki þau þátt í útikennslunni með nemendum og að lokum stjórni þau sjálf tíma í útikennslu.

Tók skátastarfið með í kennsluna

Hrafnhildur útskrifaðist sem grunnskólakennari árið 2006 og hefur kennt í Sjálandsskóla frá upphafi skólans árið 2005, fyrst sem umsjónarkennari og síðustu árin hefur hún sérhæft sig í útikennslu. Hún er mikil útivistarkona, hefur starfað í skátunum frá unglingsárunum og einnig í björgunarsveit. Hún hefur sótt mörg námskeið um útikennslu, bæði hérlendis og erlendis.

Allar námsgreinar kenndar í útikennslu

Sjálandsskóli er þekktur fyrir útikennslu og hefur komið sér upp ýmiss konar búnaði til útikennslu, s.s. kajökum, tjöldum, eldunargræjum og útikennslubúnaði. Hrafnhildur segir mikilvægt þegar skóli ákveður að leggja áherslu á útikennslu, að hafa fasta útikennslutíma í stundatöflu. Hún segir að hægt sé að kenna allar námsgreinar í útikennslu.

Hrafnhildur segir að útikennslan sé þríþætt. Í fyrsta lagi eru stöðvar á skólalóð, þar sem unnið er með sömu hæfniviðmið og unnið er með inni í skólanum á lifandi og skemmtilegan hátt.  Í öðru lagi eru það vettvangsferðir þar sem farið er á söfn eða aðra staði sem tengjast því sem nemendur eru að læra í ýmsum námsgreinum, t.d. um lífið í fjörunni. Þá er farið í fjöruna, tekin sýni og þau skoðuð nánar í kennslustofunni. Í þriðja lagi er farið í langar ævintýraferðir þar sem stundum er gist eða þá að farið er í langa dagsferð, hjólaferð, hellaferð eða skíðaferð. Í þannig ferðum takast nemendur á við áskoranir og öðlast þannig sjálfstæði og trú á eigin getu, segir Hrafnhildur.

Útikennsla er ævintýri

Hrafnhildur lýsir útikennslunni sem ævintýri, þar sem nemendur séu að skoða og kanna umhverfið og að fara út fyrir þægindarammann. Þeir þurfa að treysta á sjálfan sig, til dæmis með því að fara út á sjó á kajaka, en allir nemendur skólans, frá 4.bekk, fá tækifæri til að sigla á kajak, fyrst í sundlaug og svo út á sjó. Í unglingadeild geta nemendur svo valið um kajak sem er ein af fjölmörgum valgreinum í skólanum.    

„Í útikennslu öðlast nemendur náttúruvitund og verða meðvitaðir um umhverfi sitt og mikilvægi þess að vernda náttúruna“ segir Hrafnhildur. Þeir tengjast raunverulegum viðfangsefnum í stað þess að læra allt upp úr bók. Henni finnst nemendur verða meira virkir og öðlast sjálfstæði. Hún segir að krakkarnir læri að vinna saman sem hópur, eins konar sjálfsprottin hjálpsemi. Að þau aðstoði hvort annað og myndi þannig sterk tengsl sem hópur.

Hrafnhildur segir að útikennsla henti öllum nemendum á mismundandi getustigum þar sem að allir fái að njóta sín á sínum forsendum.