Heim Fréttir „Verið að grafa dýpra í vasa stúdenta“

„Verið að grafa dýpra í vasa stúdenta“

Stúdentaráð gagnrýnir fjársvelti háskólayfirvalda gagnvart Háskóla Íslands í nýrri herferð sinni „Stúdentar gjalda misbresti stjórnvalda“. Herferðin var sett af stað vegna þess að háskólayfirvöld hafa óskað eftir því að skrásetningargjald Háskóla Íslands verði hækkað í 95.000 krónur.

„Við viljum að stjórnvöld fjármagni opinbera háskólamenntun sjálf en leiti ekki enn frekar í vasa stúdenta með því að breyta lögum um opinbera háskóla þannig að heimilað verði að hækka skrásetningagjöld,“ segir Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Rebekka segir að augljóst sé að að háskólinn fari fram á hækkun á skrásetningargjöldum vegna niðurskurðar á fjármagni til háskólanna í síðustu fjárlögum. Stúdentaráð hafi nú þegar sett spurningarmerki við núverandi kostnaðaliði sem falla undir skrásetningargjöldin og því sé það skrýtið að ætla sér að fara að hækka gjaldið enn frekar.

Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Skráningargjöldin séu ekki notuð í almennan rekstur

Samkvæmt lögum um opinbera háskóla er háskólum heimilt að rukka sérstaklega fyrir stöðu-, inntöku-, fjar- og upptökupróf. Rebekka segir að miðað við það megi gagnálykta sem svo að þeim sé ekki heimilt að rukka sérstaklega fyrir önnur próf. Hins vegar sé Háskóli Íslands að rukka nemendur fyrir skipulag slíkra prófa. Meðal kostnaðarliða sem falla undir skrásetningargjöldin eru:

  • Aðgangur að tölvum, prenturum ofl.
  • Þjónusta alþjóðaskrifstofu
  • Til samtaka og stofnana stúdenta, FS, SHÍ
  • Skrásetning stúdenta í námskeið og próf
  • Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf
  • Aðstaða og stjórnun
  • Aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu
  • Skrifstofa kennslusviðs
  • Skipulag kennslu og prófa
  • Nemendakerfi

Á heimasíðu Stúdentaráðs eru stúdentar meðal annars spurðir hvort þeim finnist kostnaður við skipulag kennslu ekki falla undir kostnað vegna kennslu.

Stúdentaráð telur að nemendur eigi ekki að standa undir almennum rekstri háskóla og vafasamt sé að halda að slíkt standist skilyrði laga um opinbera háskóla sem heimila rukkun skrásetningargjalda.

„Við krefjumst meira fjármagns inn í háskólastigið og að stjórnvöld standi við loforð sín um stóraukna fjármögnun til háskólastigsins. Verði það annars vegar gert með því að brugðist verði við stöðunni sem blasir við Háskóla Íslands núna. Svo er það að sá niðurskurður sem boðaður er í fjármálaáætlun verði leiðréttur,“ segir Rebekka.