Heim Nemendafélag vikunnar Vilja Tomma Tómat sem lukkudýrið sitt

Vilja Tomma Tómat sem lukkudýrið sitt

Hnallþóra er félag nemenda í matvæla- og næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið HÍ. 77 nemendur eru í BS-námi í matvæla- og næringarfræðideild. Nemendafélagið er fámennara en mörg önnur og þekkjast því meðlimirnir vel. Þorgils Ari Guðmundsson, forseti félagsins, og Hilmar Jón Úlfarsson meðlimur svöruðu nokkrum skemmtilegum spurningum um Hnallþóru.

Þorgils Ari Guðmundsson, forseti félagsins og Hilmar Jón Úlfarsson, meðlimur.

Hvernig varð nafn nemendafélagsins til og hvað þýðir það?

Hnallþóra kemur úr bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness, en þetta er í raun bara annað nafn yfir tertu.

Ef þið ættuð að líkja lífinu í ykkar deild við sjónvarpsþátt, hver væri sjónvarpsþátturinn? 

Ætli það sé ekki bara „Friends”, af því að það er alltaf svo góður mórall hjá okkur, alltaf svona eitthvað skemmtilegt að koma upp á. Við erum svo fámenn og þjöppuð saman að maður nær að kynnast öllum í nemendafélaginu svo vel.

Hvert er mottó nemendafélagsins?

Það hefur í raun aldrei komið upp eitthvað mottó, en ég held að þetta sé bara eitthvað sem við verðum að ræða á næsta fundi.

Hver væri draumavísindaferðin?

Ef það væri í boði að fara hvert sem er í heiminum þá væri það Nestlé, þau eiga svo mörg fyrirtæki að maður gæti lært helling af því. En fyrst og fremst að það sé boðið upp á nóg af áfengi, það er mikilvægast.

Ef félagið ætti lukkudýr, hvað myndi það þá vera?

Við þyrftum að ræsa upp hann Tomma Tómat sem var í Hagkaup fyrir mörgum árum.

Hver er eftirminnilegasta vísindaferðin sem af er skólaárinu?

Það er Ölgerðin, sú vísindaferð er alltaf vinsælust. Við fáum alltaf einhvern næringarfræðing eða matvælafræðing sem var í nemendafélaginu áður sem sýnir okkur fyrirtækið. Við í þessu námi tengjum kannski svona mest við þau. Gaman að kíkja á þetta og sjá verksmiðjuna.

Hver er stærsti viðburður ársins hjá félaginu?

Af þeim sem við höldum sjálf er það árshátíðin, það eru langflestir sem mæta á hana og það er lagt mesta púðrið í hana. Svo er heilbrigðisvísindasviðið duglegt að halda viðburði saman eins og Heilóvín, sem er frekar stórt.

Hvar slaka nemarnir í deildinni á?

Við vorum með nemendarými í Læknagarði þar sem við vorum mikið, en við þurftum því miður að flytja úr því. Við erum að fá nýtt rými bráðum í Nýja Garði en núna erum við mjög dreifð og finnum okkur bara góðan sófa þar sem við erum.

Næringar- og matvælafræðinemar eru?

Æðislegir.

Sem næringar- og matvælafræðinemar, hvað er besta ráðið ykkar til að forðast þynnku eftir djamm?

Það er best að fá sér steinefni á undan og eftir á, áður en maður fer að sofa. Daginn eftir er mikilvægt að fá sér kolvetni og passa upp á vökvajafnvægið. Stay hydrated.

Vísó hjá Greenfit
Vísó hjá Ölgerðinni