Heim Pistill vikunnar Áramótaheit… böl eða blessun?

Áramótaheit… böl eða blessun?

Í lok desember eru margir sem ákveða að setja sér áramótaheit og er höfundur ein af þeim, þrátt fyrir að hafa sett mér þau með aðeins öðru sniði í ár. En hversu lengi endast þessi svokölluðu áramótaheit og eru þau í raun og veru af hinu góða?

Ég held að það sé öruggt að segja að algengustu áramótaheitin tengist hreyfingu, bættu mataræði, þyngdartapi o.s.frv.

Við sem setjum okkur áramótaheit erum í góðum gír seinustu dagana í desember, spennt að byrja árið af krafti og ætlum okkur flest að negla þetta nýja ár.

Mörg vöknum við svo með höfuðverk eða aðra kvilla sem fylgja eftir áramótaskemmtun og tökum okkar seinasta „treat“, en ætlum svo heldur betur að fara „all in“ í ræktina strax á öðrum degi mánaðarins, borða hollt eða fylgja annars konar megrunarkúrum.

Líkamsræktarstöðvarnar fyllast af fólki sem mörg hver keppast við að ná sem mestum árangri á sem skemmstum tíma. Það sem fylgir þessum áramótaheitum í mörgum tilfellum eru hin ýmsu boð og bönn, t.d. hvað varðar nammi, ákveðnar fæðutegundir o.fl.

Þessi boð og bönn geta orðið til þess að fljótlega „fellur“ fólk á mataræðinu og telur sig vera búið að skemma fyrir sér og í mörgum tilfellum gefst upp í kjölfarið.

Sjálf hef ég margoft verið í þeirri stöðu, að setja mér of stór áramótaheit og fara of hratt af stað. Í ár ákvað ég þó að hafa þau raunhæfari og viðráðanlegri sem hefur gengið alveg ljómandi vel,  ég setti mér einfaldlega það markmið að taka vítamínin mín á hverjum degi. Að mínu mati er betra að setja sér færri, minni og raunhæfari markmið fyrir árið sem hægt er að standa við lengur en bara út janúar, það má nefnilega alltaf bæta við markmiðum þó það sé kominn febrúar án þess að kalla þau áramótaheit.

Sem minnir mig á, ég á eftir að taka vítamínin mín í dag…

Höfundur er nemi í blaða og fréttamennsku á meistarastigi.