Heim Pistill vikunnar Kokteilar og kasmírpeysur

Kokteilar og kasmírpeysur

Nýlega lá ég uppi í sófanum mínum á föstudagskvöldi að sötra hræódýrt hvítvín undir teppi, horfandi á einhverjar YouTube-klippur af Bítlunum að tala um tónlist sína. Í þessari heilögu kósýstund minni læddist þó að mér eitt augnablik af tilfinningalegum rússíbana þar sem ég hugsaði um aldur minn og hvort að ég væri gjörsamlega búinn að missa vitið að vera eyða prýðisgóðu föstudagskvöldi í það sem mætti kalla hreinræktað, miðaldra-hobby. Ég minntist þeirra daga þar sem ég iðaði af spenningi fyrir helginni og fann sjálfan mig á föstudagskvöldum í trylltum trans á klístruðum dansgólfum Reykjavíkurborgar. Rússkinsskórnir munu ekki líta jafn vel út morguninn eftir en það breytir engu. Maður er í trans. Er maður einhverntímann meira á lífi en þegar maður fellur í trans? Helst undir einhverjum blikkandi strobe-ljósum sem baða líkamann í ljósi á hálfrar sekúndu fresti og yfirgnæfandi, taktfastir rafmagnstónar undir. Gæsahúð. Ásgeir Trausti söng um dýrð í dauðaþögn á þessum tíma en ég virtist alltaf finna meira fyrir dýrðinni í ærslagangi og skarkala. Dýrð í dynjanda öllu frekar.  

Það er auðvelt að tapa sér í þessum minningum með eitthvað kjánalegt bros á vör. Brosið fylgir þó ekki alltaf. Ég fékk, liggur við, einkenni áfallastreituröskunnar um daginn þegar ég var að keyra og rambaði á útvarpsstöð sem var að spila lagið Sorry með Justin Bieber. Eina stundina var ég starandi á malbikið fyrir framan mig og skyndilega heyri ég silkirödd Biebers syngja þessi orð, “Is it too late now to say sorry” og ég er mættur á klúbbinn og er u.þ.b. tvítugur. Sitjandi á flöskuborði sem var allt of dýrt, hlustandi á þetta lag sem var svona 300 desíbilum of hátt. Einu samræðurnar sem maður gat átt við borðfélagana voru með augnaráði og handahreyfingum. Tilgangslaust, en á sama tíma einhver fílíngur í því. Ætli þetta sé ekki líka ástarsaga 21. aldarinnar á Íslandi. „Við kynntumst á Biffanum með augnaráði, látbragðsleik og blíðum dansi. Engin orð sögð fyrr en morguninn eftir“. Mögulega hefur þessi lína hljómað í einhverjum matarboðum. Allavega, þetta tryllti minn innri kjarna á þeim tíma en eflaust myndi ég frekar tyggja glerbrot í dag.

Það átti sér stað einhver persónuleg vitundarvakning í Covid-faraldrinum hjá mér. Ég er orðinn of gamall fyrir þetta. Þessi vitundarvakning varð svo staðfest þegar ég lét góðan vin minn plata mig síðasta sumar niður í bæ á klúbb. Kjánalegri hef ég sjaldan verið. Eins og túristi í eigin æsku að reyna að upplifa það sem var ekki lengur til staðar. Ég hafði rifið fram gamla leðurjakkann og blásið af honum rykið en fílingurinn var algjörlega undir frostmarki. Þegar þú ert kominn nær þrítugu en tvítugu þá er held ég að þú sért kominn vel inn í seinni hálfleik klúbba-lífsstílsins. Jafnvel uppbótatímann. Ég var umvafinn fólki sem var örugglega ennþá að biðja foreldra sína um klink fyrir bland í poka þegar ég var í gamla transinum undir strobe-ljósunum á sínum tíma. Við tölum einfaldlega ekki sama tungumál. Ég hef fundið sjálfan mig færast fjær og fjær frá glansandi leðurjakkanum, tábeittu rússkinsskónum og hinni snarbiluðu vodka-redbull blöndu flöskuborðanna. Ég hef færst hægt og rólega frá ringulreið yfir í rólegheit. Ég vil mjúka kokteila og mýkri kasmírpeysur. Brakandi viðarbekk inni á þægilegum og hljóðlátum bar þar sem ég get átt hlýjar samræður við vini og félaga. Helst með einhverri einkennislykt sem segir manni að hér megi finna samræður og sögur. Mixtúran af svitalykt og Axe-svitalyktareyðinum sem finna má svo oft á klúbbum er ekki leyfð hér. Hér ríkir rósmarín og rakspírinn.

Fyrir áhugasama þá er ég að verða 28 ára á næstu mánuðum. Það er í raun engin aldur og þetta er svo sannarlega ekki einhver miðaldarkreppa sem er að eiga sér stað 20 árum á undan áætlun. Ég er heldur ekki að gefa í skyn að ég sé að færast nær einhverjum munka-lífsstíl og lifa einhverju hæglátu klausturlífi. Eflaust væri enn hægt að pumpa upp gamla djamm-andann en það þyrfti tilefni og ágætt dass af sannfæringarkrafti. Þessi aldur er samt skrýtinn upp á það að gera að hann er á svona Coming-of-age stigi (ég biðst afsökunar á slettunni). Maður er að detta inn í svona ekta, hreinræktaðan fullorðinsaldur. Samtöl við vini eru meira í dag um húsnæðislán, barneignir og Tyrklandsferðir (fyrir þá þunnhærðu). Eitt sinn óttaðist ég þetta svo innilega en undanfarið ár eða tvö hef ég verið að njóta þess meir og meir. Þess vegna var þetta nú bara eitt augnablik af panikki í kósýkvöldinu mínu. Hálfgerður óður til fortíðar sem ég er að sakna minna og minna. Sötra bara í rólegheitum þetta hræódýra Barefoot hvítvín undir teppinu og nýt þess að horfa á Lennon-vélina að tala um Hey Jude.