Heim Pistill vikunnar Sem frjáls einstaklingur hlýt ég að ráða hvað ég segi

Sem frjáls einstaklingur hlýt ég að ráða hvað ég segi



„Ég hélt að það væri málfrelsi á Íslandi.“
„Hvað er þetta, ég var bara að grínast.“
„Voða viðkvæmni er þetta.“


Setningar á borð við þessar eru algengt tól sjálfskipaðra sérfræðinga í tjáningarfrelsi, sem oftar en ekki eru fastagestir á kommentakerfum internetsins. Satt er að tjáningarfrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur þeirra sem þetta land byggja. Öllum er jú frjálst að hafa sínar skoðanir og tjá þær með einum eða öðrum hætti. Öll búa yfir réttinum að hafa sínar skoðanir, hugmyndir og sannfæringu án þvingunar. Góðkunningjar kommentakerfisins hampa þessu og telja sig í kjölfarið njóta þeirra mannréttininda að hella úr skálum sinnar eigin sannfæringar í tíma og ótíma.


Þessir góðkunningjar kommentakerfisins gleyma þó oft einu smávægilegu smáatriði. Skoðanir og sannfæringar sem fleygt er fram á opinberum vettvangi þarf að ábyrgjast fyrir dómi, ef til þess kemur. Annar stjórnarskrárvarinn réttur er rétturinn til friðhelgi einkalífsins. Það sem einn aðili gæti talið byggja á tjáningarfrelsi, gæti annar aðili þó talið stríða gegn rétti á friðhelgi einkalífsins.


Hér koma til sögunnar hugtökin ærumeiðingar og aðdróttanir. Leyfilegt er að takmarka tjáningarfrelsi með þremur skilyrðum. Slík takmörkun verður að vera gerð með lögum, markmiðið með takmörkuninni verða að vera lögmætt og takmörkun verður að vera nauðsynleg og samræmast lýðræðishefðum. Dæmi um slíkar takmarkanir eru ákvæði í lögum um áðurnefndar ærumeiðingar og aðdróttanir. Samkvæmt almennum hegningarlögum skal sá sem annað hvort meiðir æru annars einstaklings eða dróttar að öðrum einstaklingi sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Eina sem gerir slíka háttsemi undanþegna refsingu er ef um almannahagsmuni sé að ræða.


Í stuttu máli sagt, einstaklingi er frjálst að hafa sína skoðanir en um leið og viðkomandi opinberar þær skoðanir verður sá hinn sami að bera ábyrgð á þeim skoðunum ef þær þykja stríða gegn réttindum þeirra sem skoðunin beinist að.

Satt er að við á Íslandi búum við þau forréttindi að mega tjá hug okkar, svo lengi sem það er með löglegum hætti, án þess að verða fyrir aðkasti og ofsóknum. Það sama er ekki hægt að segja alls staðar í heiminum.
Synd er að misnota þau forréttindi sem við búum við á Íslandi með því að ýfa upp hatursorðræðu á internetinu með illkvittnum orðum. Orðum sem viðkomandi myndi að öllum líkindum aldrei þora að segja augliti til auglitis og skýla sér svo á bak við tjáningarfrelsið.


Því tjáningarfrelsi eins einstaklings trompar ekki mannréttindi annarra einstaklinga. Virðum því mannréttindi annarra á meðan við horfumst í augu við okkar eigin forréttindi.


Steinunn Björk Bragadóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.