Stundum þegar illa liggur á mér velti ég fyrir mér þeirri spurningu hvort allir þurfi að hafa skoðanir. Oftast kemst ég að þeirri niðurstöðu að í mörgum tilvikum væri betra að færri hefðu skoðanir. Að minnsta kosti skoðanir sem það tjáir. Skýrasta birtingarmynd tilgangslausra skoðana (að mínu mati) er á Twitter. Þar koma oft mjög leiðinlegar skoðanir um leiðinleg málefni.
Leyfið mér að útskýra betur það sem ég er að meina. Það er nauðsynlegt að gera greinarmun á óþarfa leiðinlegum skoðunum og þörfum leiðinlegum skoðunum. Þegar fólk er að berjast fyrir einhverjum málstað sem það þekkir lætur það í ljós leiðinlegar en þarfar skoðanir. Þegar fólk veit ekki um hvað það er að tala lætur það í ljós óþarfar leiðinlegar skoðanir. Fólk fer stundum að rífast um hvort ýmis matvæli séu holl eða óholl. Einn segir að kjöt sé versta sem þú getur látið ofan í þig, næsti talar um að grænmeti sé óhollt og sá þriðji fyrirlítur ávexti. Ekki furða að margir vita ekki hvað þeir eiga að borða. Eins og svo oft er best að hlusta á mömmu. Ferskt og fjölbreytt!
Sumir virðast þrífast á því að láta í ljós óþarfa leiðinlegar skoðanir og elska hreinlega að rífast á Twitter og láta eins og þeir séu betri en aðrir. Mögulega heldur þetta fólk að það sé að gera eitthvað gagn. Kannski sé ég það bara ekki. Einnig gæti verið að það sé ómögulegt að segja til um það. Það sem er rétt í dag er rangt eftir ár. Einmitt þess vegna finnst mér stundum tilgangslaust að hafa skoðanir á hlutum. Hvernig í ósköpunum á maður að vita hvað er rétt?!