Er líf mitt virði 3 milljóna króna?
Þegar ég var nýorðin 18 ára hringdi síminn minn, á skjánum sá ég fyrirtækjanúmer sem ég kannaðist ekki við.
Hugarflugið fór af stað á meðan síminn hringdi. Er þetta Gallup að fara að spyrja mig spurninga næsta hálftímann, er þetta kannski bara mamma að segja mér að hún hafi gleymt gemsanum sínum, góðgerðarfélag, amma, eða er þetta einhver svikari að reyna að komast yfir peningana mína?
„Sæl, ég er að hringja frá Tryggingamiðstöðinni, ég sé að þú ert ekki lengur tryggð þar sem þú ert orðin 18 ára og langaði mig að ræða við þig um tryggingar…“
Ég gat andað rólegar þar sem þetta var hvorki Gallup né einhver að reyna að stela af mér pening, eða hvað?
Eftir dágott spjall við þennan ágæta tryggingasala býður hann mér líftryggingu upp á 3 milljónir. Þannig ef eitthvað kemur fyrir mig, fá foreldrar mínir heilar 3 milljónir.
Ég svara manninum glettnislega: „ertu að segja mér að líf mitt sé bara 3 milljóna króna virði!? “. Grey maðurinn varð hálf vandræðalegur og þetta var líklega ekki svar sem hann bjóst við frá 18 ára stúlkukind. Eftir smá viðbótarspjall sagðist ég ætla að hugsa málið og ræða við foreldra mína þar sem að ég skildi lítið í þessu tryggingahrognamáli sem helst þarf lögfræðigráðu til þess að skilja.
Ég velti því stundum fyrir mér hvort tilgangurinn sé kannski að hafa þetta eins flókið og hægt er, svo að sem fæstir skilji það, því það muni skila meiri aur í kassann?
„It‘s better to be safe than sorry“
Nokkur ár liðu og ég var mögulega án trygginga á einhverju tímabili þangað til að síminn hringdi aftur og var ég boðuð í tryggingaviðtal þökk sé vinkonu minni sem skráði nafnið mitt hjá einhverjum tryggingasala.
Ég fór til tryggingafélags og talaði við mann sem bauð mér líf- og sjúkdómatryggingu upp á 10 milljónir ef eitthvað skyldi nú gerast. Eftir spjallið leið mér eins og ef ég myndi ekki þiggja þessa tryggingu myndi ég labba út í bíl, keyra af stað og lenda í slysi.
Eftir að hafa svarað ótal spurningum sem áttu að tryggja að ég væri nú örugglega heilbrigður einstaklingur sem myndi aldrei sjá þessar 10 milljónir, átti ég að skrifa niður 10 einstaklinga sem gæti vantað tryggingar. Ég valdi því 10 óheppna sem ég var með vistaða í símanum mínum og datt í hug að ef einhvern vantaði góða tryggingu væri það systir mín. Hún hlaut mænuskaða og er í hjólastól en fékk ekki eina einustu krónu frá tryggingum því hún lenti ekki í slysi. Því væri eflaust gott fyrir hana að tryggja sig í bak og fyrir.
Ég nefndi systur mína við þennan ágæta tryggingasölumann en hann sagðist lítið sem ekkert geta gert fyrir hana. Ég spurði því blákalt „Ætlarðu að segja mér að þið tryggið bara „heilbrigt“ fólk sem þarf í raun ekki á tryggingum að halda en þið viljið ekki tryggja og hjálpa fólki sem þarf virkilega á þeim að halda?“
„Já því miður er það svolítið þannig“ svaraði maðurinn.
Tryggingar fyrir hvern?
Ég velti því fyrir mér hvort tryggingafélög séu bara peningaplokk sem lætur almenning borga sem mest í tryggingar án þess að fá einn einasta eyri til baka? Það mætti stundum halda að í smáa letrinu á tryggingunni standi að til þess að fá bætur verði maður að lenda í slysi klukkan 20:13 á þriðjudegi og bíllinn sem klessti á mann verði að vera gulur Yaris.
Það virðist stundum vera í íslensku samfélagi að þeir sem hafa nógu góða lögfræðinga fái margar milljónir út úr tryggingum á meðan aðrir fá ekki neitt.
Það sem ég skil ekki við tryggingafélög er hvers vegna skiptir máli hvernig hlutirnir gerast en ekki hvað kom fyrir einstaklinginn, hver er skaðinn sem einstaklingurinn lendir í og kostnaðurinn sem því fylgir?
Ef einstaklingur lendir í bílslysi og hlýtur mænuskaða getur hann átt von á tugi milljóna en ef annar einstaklingur hlýtur sama skaða en það er ekki slys fær hann ekki krónu, hvernig er það sanngjarnt?
Er eðlilegt að tryggingafélög séu rekin af hagnaðardrifnum sjónarmiðum fremur en mannúðlegum? Væri ekki betra ef þessi peningur skilaði sér út í samfélagið í staðinn fyrir arðgreiðslur?
Í fullkomnum heimi ímynda ég mér tryggingafélög sem borga ekki eigendum sínum milljarða í arð, milljarða sem hefðu getað nýst einstaklingum sem féllu ekki undir smáa letrið í samningunum. En því miður virðist geta skipt meira máli hvernig hlutirnir gerast en ekki hvað gerist.