Heim Pistill vikunnar Framtalsskil standa nú yfir

Framtalsskil standa nú yfir

Mér féllust hendur þegar ég las titilinn af póstinum og sagði við ímyndaða vinkonu mína:
„Fyrst það er til AI sem skapar myndlist og skrifar ritgerðir, af hverju er þá ekki til AI sem fyllir út skattframtalið fyrir mig?“
„Svo ekki sé hægt að svíkjast undan skatti,“ svaraði hún um hæl.
„En gera það ekki allir nú þegar? Af hverju er ekki hægt að búa til AI sem veiðir þau sem eru með peningana sína í skattaskjólum eða eru að svíkjast undan skatti?“
„Myndu einhverjir fjárfestar fjárfesta í því?“

Skattframtalið vekur upp margar stórar spurningar. Allt frá því hvernig eigi að fylla það út og að því hverjir í samfélaginu okkar geta borgað sig frá þeim skyldum að skilja hvernig eigi að fylla það út.

Margir stúdentar standa nú frammi fyrir því að þurfa að fylla út framtalið með kvíðahnút í maga. Þungur nafnorðastíll leiðbeininganna og stofnanamálið sem fylgir öllu ferlinu er yfirþyrmandi. Hvert fara þær litlu verktakatekjur sem ég fékk með fram námi? Var skattkortið notað rétt í þeim störfum sem unninn voru yfir árið? Spurningar vakna eins og hvað eru vaxtabætur? Er ég framteljandi? Hvernig slepp ég við að borga skatt af Erasmus styrknum mínum?

Staðreyndin er samt sem áður sú að hluti samfélagsins þarf aldrei að spurja sig þessara spurninga og fá bara bókara í málið. Er það eitt af stóru markmiðunum innan nýfrjálshyggju nútímans? Frelsið sem hægt er að kaupa sér? Nokkrir hornsteinar frelsis í nútímanum virðast vera falnir í getunnni til að borga sig frá því að skilja það sem ómögulegt er að skilja, getunni til að gera ekki það sem er leiðinlegt að gera og getunni til að greiða jafn lítið hlutfall í skatt og kostur er á, með löglegum eða mislöglegum hætti.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.


Þessi tími ársins minnir alltaf á þetta atriði úr Fóstbræðrum: